Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[18:02]
Horfa

Ágúst Bjarni Garðarsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er nefnilega rakið ágætlega í skýrslu fjármálaráðherra hvernig þróunin var þegar lögunum var breytt 2004, hvaða ráðgjöf sjóðurinn fékk á sínum tíma, m.a. frá alþjóðlegum banka, Deutsche Bank og fleiri aðilum. En ég er alveg sammála. Það er kannski rót vandans að fyrirkomulagið var þannig að lántakendur gátu greitt upp sín lán en Íbúðalánasjóður gat það ekki. Við stöndum hér og erum að reyna að leysa úr þessum vanda í dag, 18 árum síðar. Hins vegar þegar kemur að pólitíkinni þá sagði ég í ræðu minni áðan að mér hefðu þótt 90% lán til ungs fólks til fyrstu kaupa skynsamleg á þessum tíma, svo fólk gæti komið þaki yfir höfuðið. Það þætti mér nú saga til næsta bæjar ef hv. þingmaður og hans flokkssystkini í Samfylkingunni myndu leggjast gegn slíkum aðgerðum.