Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[19:20]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi orsök og afleiðingu í þessu sambandi, sem var þessi binding ríkissjóðs á vextina en aftur á móti frelsi lántakenda til að greiða upp lán, þá getum við rétt ímyndað okkur stöðuna ef við hefðum einfaldlega læst lántakendurna inni í þessu vaxtaumhverfi þegar vextirnir fóru hérna niður. Hvaða umræðu hefði það skapað? Hvernig hefði verið hrópað á Alþingi í þeirri stöðu?

Alþingi er einfaldlega í þeirri stöðu að horfa til efnahags ríkisins. Við erum að greina stöðuna. Við verðum að ganga fram með þeim hætti að við sjáum færi á að spara útgjöld ríkissjóðs, rétt eins og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir sagði hér áðan. Ég tók undir, auðvitað með hagsmuni almennings í huga. Við gerum þetta ekki með því að brjóta allt og bramla.

Virðulegi forseti. Guð forði mér frá því að láta ekki reyna á það hvort hægt sé að spara hér til lengri tíma tugi milljarða króna.