Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 23. fundur,  26. okt. 2022.

ÍL-sjóður.

357. mál
[19:23]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra er einmitt fjallað um það atriði sem hv. þingmaður spyr hér um, um dráttinn á því að skipa verkefnisstjórnina. Í skýrslunni segir að það hafi verið gert í apríl 2022 og að ástæðurnar fyrir því að það hafi ekki verið gert fyrr hafi einfaldlega verið að í kjölfar lagasetningarinnar frá 2019, en lögin taka gildi þá, er komin hér kórónuveirufaraldur og menn hafi einfaldlega ýtt þessu verkefni til hliðar.

Ég ætla ekkert að hrópa mig hásan af einhverjum vonbrigðum með að þetta hafi ekki verið gert fyrr í ljósi þeirrar stöðu sem við vorum almennt í með okkar samfélag og okkar efnahag.

Það gefur mér líka tækifæri til þess að nefna, virðulegi forseti, af því að því hefur líka verið haldið fram í umræðunni um þessa skýrslu ráðherra og á blaðamannafundinum að ÍL-sjóðurinn hafi á einhvern hátt verið misnotaður, að á bls. 13, þar sem fjallað er um 190 millj. kr. lántöku ríkissjóðs hjá sjóðnum, er skýrt tekið fram og ég held að rétt sé að það komi fram í þessu andsvari að ríkissjóður gaf út skuldabréf sem bera verðtryggða vexti og tóku mið af kjörum ríkissjóðs á markaði á þeim tíma sem lánið var tekið. Mér finnst bara áríðandi að við höldum þessu til haga af því að á einhvern hátt er verið að reyna að gera þessa lántöku tortryggilega. Það liggur þá alla vega fyrir í þessari skýrslu, á bls. 13, sem ég ítreka. Verkefnisstjórnin var skipuð í apríl 2022 eins og stendur í skýrslunni. Eru það vonbrigði að það var ekki gert fyrr? Ég hef skilning á því í ljósi þeirra aðstæðna sem við vorum í.