153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[11:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Við erum fámennt eyríki sem tekur þátt í alþjóðasamfélaginu. Sem slíkt njótum við ýmissa réttinda en tökum einnig á okkur ýmsar skyldur eins og okkur ber. Á undanförnum vikum höfum við orðið vitni að umræðu sem ber þess merki að þeir sem fara með völdin á Íslandi vilji ekki að Ísland, sem skipar sér í flokk með ríkustu þjóðum heims, standi sína plikt þegar kemur að því að skjóta skjólshúsi yfir fólk á flótta.

Spurt er: Hvað getum við eiginlega tekið á móti mörgum, er ekki komið nóg? Og bætt við: Kerfið er sprungið og við því verðum við að bregðast. Stutta svarið við þessum spurningum ráðamanna á Íslandi er: Það eru engar lausnir í þessu endurunna fimm ára gamla frumvarpi sem á erindi í þann veruleika sem við búum við í dag. Þær breytingar sem orðið hafa á frumvarpinu á þessu tímabili eru því miður ekki í takt við þær breytingar sem orðið hafa í heiminum og á íslensku samfélagi á þessu tímabili, hvorki fyrir stríð né eftir að það hófst. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar er ekki að gera neitt vegna þess kerfis sem er sprungið. Heilbrigðiskerfið er laskað, velferðarkerfið sömuleiðis, löggæslan, samgönguinnviðir, það er sama hvert litið er. Innviðir okkar kæra gjöfula lands standa laskaðir eftir sveltistefnu Sjálfstæðisflokks og fylgiflokka í ríkisstjórn þrátt fyrir fögur orð í stjórnarsáttmála um eflingu innviða. Þetta hefur ekkert að gera með veikt fólk eða fatlað, með brotaþola eða fólk á faraldsfæti um landið. Né heldur hefur þetta með það fólk að gera sem nú óskar eftir vernd á Íslandi, fólk á flótta undan stríði og öðrum hörmungum, því að það að reka hér innviði er verkefni sem við þurfum einfaldlega að takast á við. Það frumvarp sem við erum með hér í dag gerir ekkert til að takast á við það verkefni. Við þurfum að tryggja öryggi á landamærunum, segir hæstv. dómsmálaráðherra á sama tíma og ekki er veitt nægilegu fjármagni til að fullmanna landamærin hringinn í kringum landið. Lögreglumenn eru beinlínis færri í dag en árið 2007 þegar íbúar voru 310.000 en ekki 380.000 eins og í dag, og ferðamenn ekki 2 milljónir eins og í dag heldur 500.000. Fólk í farbanni flýgur bara úr landi og áfram gerir hæstv. dómsmálaráðherra ekki neitt, hvorki til að varna óæskilegri inngöngu né útgöngu úr landinu. Hvorki þetta frumvarp né frumvarp hans um landamæri breytir því.

Umsækjendur um vernd á Íslandi í miðju Úkraínustríði sem og vargöld í Venesúela eru fleiri en nokkru sinni. Heildarfjöldi umsækjenda er orðinn 3.300. Við skulum taka eftir því að þar af eru 2.700 frá þessum tveimur ríkjum, Úkraínu og Venesúela, auðvitað langsamlega flestir frá Úkraínu. Umsóknir frá öðrum ríkjum eru á pari við það sem tíðkast í venjulegu ári, mestan part frá Palestínu, Sýrlandi, Írak og Afganistan og ég held að við hljótum að vera sammála um að þetta eru ekki örugg ríki og friðsæl.

Umsóknir þeirra sem komast alla leið hingað án viðkomu í öðru Evrópuríki eru lagðar fram af ríkri ástæðu en þær eru líka fáar. Hvernig stjórnarliðar, sem mest hafa haft sig í frammi í þessari umræðu á undanförnum vikum, sjá fyrir sér að leysa verkefni sem þeir kalla stjórnlaust ástand er á huldu, ástand sem hefði svo vel verið hægt að hafa stjórn á með undirbúningi þegar ljóst var að fólksfjöldi á flótta yrði fordæmalaus vegna Úkraínustríðsins. Það var okkur ljóst í febrúar en enn þann dag í dag, í lok október, virðist sem ríkisstjórnin sé enn að velta fyrir sér hvernig hún geti stöðvað hingaðkomu fólks á flótta um leið og stjórnvöld bjóða flóttafólk velkomið frá þeim tveimur ríkjum sem skipa rúm 80% umsókna. Þau hrópa: Hvað viljið þið eiginlega taka á móti mörgum? Hvenær er komið nóg?

Mig langar að ræða þennan málsmeðferðartíma því að hæstv. ráðherra heldur því fram að frumvarpið auki skilvirkni. Málsmeðferðartími þeirra 80% umsækjenda sem hér hafa verið nefndir er mjög skammur. Vissulega fer í þetta umtalsverð vinna vegna umfangsins en ekki vegna rannsóknar málanna því að hún er að mestu talin óþörf, enda aðstæður kunnar. Með ákvörðun hinnar þverpólitísku útlendinganefndar á kjörtímabilinu 2013–2016 voru hins vegar settir tímafrestir sem nú á að fella niður. Tímafrestir sem ekki síst voru settir til þess að veita stjórnvöldum aðhald svo fólk í leit að vernd sæti ekki hér mánuðum og árum saman í bið eftir niðurstöðu með tilheyrandi tjóni fyrir umsækjendur sjálfa en einnig fyrir ríkissjóð. Með þessari breytingu virðist hæstv. dómsmálaráðherra telja að verkefnið hverfi en það hverfur ekkert, hæstv. ráðherra. Það þýðir einfaldlega að sá rammi sem stjórnvöldum var gefinn á að hraða málsmeðferð og auka skilvirkni, hann hverfur og aftur förum við eflaust að fá fréttir af fólki, börnum sem fullorðnum, sem hefur beðið árum saman eftir niðurstöðu mála sinna. Það er staðreynd að eftir að tímafrestir voru settir inn í lög um útlendinga þá styttist málsmeðferðartíminn. Það getum við séð í gögnum frá stjórnvöldum. Það virðist líka vera sem hæstv. dómsmálaráðherra telji að með því að reka fólk á flótta út á götu á Íslandi að 30 dögum liðnum frá endanlegri synjun á umsókn um vernd, eða samstundis ef viðkomandi kemur frá ríki sem skipar sæti á lista Útlendingastofnunar um öruggt upprunaríki, að það fólk hverfi bara af yfirborði landsins. Svo er auðvitað ekki. Fólk á flótta mun eftir þessa ákvörðun lenda á sveitarfélögum að leysa og heilbrigðiskerfinu, sveitarfélögum sem nú þegar mega þola það að taka á móti endalausum verkefnum frá ríkinu án þess að fjármagn fylgi. Það er alveg ljóst að þetta mun líka lenda á refsivörslukerfinu þar sem fólk sem býr á götunni þarf einhvern veginn að finna út úr því hvernig það ætlar að draga fram lífið. Þar með neyðum við fólk til að fara í alls konar starfsemi sem við teljum óæskilega og jafnvel ólöglega. En hvort tveggja refsivörslukerfið og heilbrigðiskerfið, sem áður var minnst á að þyrfti að taka við þessum verkefnum, er fjársvelt í boði ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur.

Já, þetta er staðan og það er ekkert í þessu frumvarpi hæstv. ráðherra sem mun breyta þessu. Það hefur aðeins verið talað um glæpahópa sem hingað koma. Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að vernda þolendur glæpahópa sem hagnýta sér neyð fólks á flótta, en hæstv. dómsmálaráðherra er ekki í því, frekar en öðru sem hann talar um, að gera neitt til að vernda þennan hóp. Það er ekkert. Þolendur mansals verða áfram þolendur mansals verði þetta frumvarp samþykkt. Þolendur þeirra sem nýta sér þá aura sem veittir eru fólki á flótta til innkaupa í Bónus verða áfram óvarðir, enda ekkert í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra sem verndar þetta fólk — ekki neitt.

Ég spurði hæstv. dómsmálaráðherra spurninga um hvað það væri í frumvarpinu sem kæmi í veg fyrir þennan mikla fjölda sem væri á flótta eða myndi vernda þennan hóp sem glæpahópar úti í heimi hagnýta sér. Auðvitað gat hann ekki svarað því, auðvitað ekki, af því að það er ekkert í þessu frumvarpi sem tekur á þeim álitaefnum sem verið er að fleygja hér á loft í umræðunni. Það er staðreynd að fólk sem vill búa hér og er svo óheppið að vera ekki EES-borgarar mun áfram eiga nánast enga möguleika á að sækja hér atvinnu og búsetu með sinni fjölskyldu. Það mun áfram vera þannig, því að þrátt fyrir fögur orð Sjálfstæðisfólks er ekkert gert til að reyna að einfalda fólki að sækja um leyfi, ekki neitt. Hæstv. ráðherra talar um að slá skjaldborg um verndarkerfið á sama tíma og hann talar um að það þurfi bara að leyfa fólki að setjast hér að og vinna. Meginþorri þess fólks sem kemur hingað í leit að vernd þráir ekkert meira en að setjast hér að og vinna og meiri hluti þessa fólks er á vinnualdri af því að það er alla jafna sterkasta fólkið sem nær að koma alla leið að Íslandsströndum. Við erum bara svo langt í burtu. Langsamlega flestir sem eru á flótta í heiminum fara til nágrannaríkja og Ísland er hreint ekki meðal nágrannaríkja. Langsamlega flestir sem flúið hafa Venesúela eru í Kólumbíu, langsamlega flestir sem hafa flúið Sýrland eru í Tyrklandi og öðrum nágrannaríkjum þar og langsamlega flestir sem hafa flúið Úkraínu eru í Póllandi og öðrum nágrannaríkjum. Það eru bara þeir öflugustu sem ná alla leið til Íslands og þetta er fólk sem vill gjarnan vinna og sjá fyrir sér, en því miður er kerfið þannig uppbyggt að í fyrsta lagi er atvinnuleyfi ekki afgreitt á sama tíma. Bráðabirgðaleyfi eru mjög seinsótt fyrir þá sem bíða niðurstöðu mála sinna. Það er mjög erfitt að fá þau í dag og er það bara ákvörðun stjórnvalda að gera það þannig þrátt fyrir að það vanti starfsfólk úti um allt. Það vantar bæði sérfræðinga og fólk í þjónustugeiranum úti um allt land en Sjálfstæðisflokkurinn, sem talar fjálglega um að það þurfi bara að hleypa fleira fólki inn til að vinna, er ekki að gera neitt til þess að einfalda það — ekki neitt. Þau vilja bara herða, herða og herða. Þetta er einn liður í því að koma í veg fyrir að Ísland standi sína plikt í alþjóðasamfélaginu.

Ég hef farið aðeins yfir það hvernig þetta frumvarp, þetta fjögurra ára gamla endurunna frumvarp sem ekki hefur einu sinni verið farið í að uppfæra greinargerðina á, mætir ekki þeim áskorunum sem hæstv. dómsmálaráðherra talar svo fjálglega um. Hæstv. dómsmálaráðherra og ríkisstjórnin öll ætti frekar að einhenda sér í að klára rammasamning um samræmda móttöku við sveitarfélögin og fjármagna þann samning eins og vera ber. Það er ekkert óeðlilegt við það að sveitarstjórnir hringinn í kringum landið hiki örlítið þegar kemur að samningum við ríkið. Við sjáum alveg hvernig samningar við ríkið hafa verið hingað til í annarri þjónustu. En samt sem áður vildu tugir sveitarfélaga leggja þessu verkefni lið í vor. Þegar ríkisstjórnin fer fram og klárar ekki samninga við sveitarfélögin þá skapast svona ástand. Það er vegna verka og verkleysis ríkisstjórnarinnar. Með því að gera hlutina of illa og með of mörgum skammtímalausnum verður þetta verkefni miklu flóknara og dýrara. Það er kostnaðarsamt að gera hlutina illa og það er samfélagslega rándýrt að taka ekki með sómasamlegum hætti á móti fólki sem leitar verndar. Við munum áfram, virðulegur forseti, fá hingað fólk í leit að vernd þótt stríðinu í Úkraínu ljúki vonandi sem fyrst. Við þurfum að standa sómasamlega að því og þar megum við líta að einhverju leyti til þeirrar þjónustu sem veitt er á Norðurlöndunum, þar sem virkilega er verið að leggja á sig að kenna fólki tungumál landanna o.s.frv.

Spurt var hvort þetta frumvarp tæki á vandanum. Nei, það er alveg ljóst að svo er ekki. Vandinn er ríkisstjórn Íslands sem fjársveltir innviði landsins.