Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:12]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir ræðuna. Hún hefur auðvitað mikla innsýn í þennan málaflokk, hafandi starfað sem lögmaður um árabil og haft mörg svona mál á sínum höndum, mál fólks á flótta. Það hefur verið dálítið í umræðunni undanfarið að við stöndum frammi fyrir aukinni komu flóttafólks og það er, eins og þingmaðurinn benti á, fyrst og fremst frá Úkraínu og frá Venesúela, það er langstærstur hluti þeirra sem hingað leita. Svo erum við að tala um einstaklinga frá Sýrlandi og Palestínu og þar fram eftir götunum. Við höfum bent á að það er ekkert í þessu frumvarpi sem mun leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir vegna komu þessara hópa þar sem við höfum boðið þau velkomin. Það liggur fyrir að okkur ber skylda til að veita fólki frá Venesúela vernd. Þrátt fyrir að hæstv. ráðherra geri mikið mál úr því hvers konar dvalarleyfi þau fái þá virðist hann nú vera búinn að sættast á það að jú, þau eiga rétt á dvalarleyfi því að þau eru flóttamenn. Fólk frá Úkraínu, ég held að enginn andmæli því að það þurfi á vernd að halda á þessum tímapunkti. Fólk frá Sýrlandi og Palestínu, ég veit heldur ekki til þess að mikill ágreiningur sé um að það eigi rétt á vernd. Þetta eru hópar sem munu koma og fá að vera vegna þess að við, eins og aðrir hafa bent á hér, getum ekki skorast undan okkar alþjóðlegu skuldbindingum. En þýðir það að þetta frumvarp geri ekki neitt, að það breyti engu? Nei, það þýðir það að sjálfsögðu ekki. Það sem það breytir engu um er að það breytir engu um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Það leysir engan vanda. Það hins vegar breytir heilmiklu fyrir flóttafólk sem fellur undir þær greinar sem verið er að breyta í þessu frumvarpi. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvað er það sem þetta frumvarp breytir?