Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, það má kannski segja það og við sjáum það svo sem í fleiri málum — ég sé að hv. þingmaður brosir hér úti í sal — að ríkisstjórnin fer fram með þingmál sem lögfestir aðgerðir sem umboðsmaður Alþingis eða dómstólar hafa úrskurðað eða dæmt að séu ekki í samræmi við lög, skorti lagastoð. Það er ekki þar með sagt að umrætt yfirvald, hvort sem um er að ræða dómstóla eða umboðsmann, sé að beina því til stjórnvalda að lögfesta þá óskapnaðinn, hreint ekki. Það má segja að svo sé í þessu tilviki þegar verið er að taka ákvörðun um að svipta fólk möguleikum til lífs eftir 30 daga. Hvað gerist eftir 30 daga? Þú færð ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, ekki fjárhagsstuðning sem þýðir að ef þú ætlar ekki að stela þér til matar þá þarftu að svelta, og þú ert ekki með húsaskjól fyrir þig og dótið þitt af því að þú átt ekki peninga og mátt ekki leigja húsnæði. Þú getur það ekki af því að þú ert ekki með kennitölu og væntanlega ekki bankareikning þó að þú ættir fjármuni. Þetta er því algerlega ómögulegt. Manneskja sem er í ólöglegri dvöl er auðvitað í ólöglegri dvöl. En það breytir því ekki að sú manneskja er hérna og ef það er ekki hægt að endursenda hana vegna þess að ríki taka ekki á móti viðkomandi þá batnar það ekkert við að setja í lög að það lokist á alla þjónustu.