Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Annað dæmi var auðvitað að stjórnvöldum fannst það standa í vegi fyrir brottvísun að þau gætu ekki neytt fólk í líkamsrannsókn eða Covid-próf og var gerð tilraun til að setja slíkt ákvæði inn í síðustu útgáfu frumvarpsins. Maður er svo sem hættur að muna nákvæmlega hvaða útgáfa þetta er, þetta hefur komið svo oft fyrir þingið og auðvitað hefur þessu alltaf verið hent rakleiðis út vegna þess að þetta er ógeðsfrumvarp, eins og hæstv. dómsmálaráðherra þreytist ekki á að tala um. Ég vil þakka honum fyrir að festa þetta í minni fólks. Það er alveg rétt, þetta er ákveðið ógeðsfrumvarp.

Mig langar að snúa mér að eina hlutanum í þessu frumvarpi sem að mínu mati er ekki ógeð. Það snýr að því að atvinnuleyfi fylgi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Nú er frumvarp komið inn í velferðarnefnd sem tekur á nákvæmlega þeim þætti og er ákveðið vandamál komið upp vegna þess að það er svo mikið af flóttafólki frá Úkraínu sem fær þetta mannúðarleyfi og þarf þar af leiðandi að sækjast eftir því að fá atvinnuleyfi. Það fylgir ekki mannúðarleyfinu. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmanni finnst um þá ákvörðun að veita flóttafólki frá Úkraínu í raun síðri vernd en það á rétt á samkvæmt lögum, vegna þess að ef flóttafólk frá Úkraínu fengi einfaldlega að sækja sinn rétt hér þá fengi það að öllum líkindum viðbótarvernd, stöðu sem er jafngild stöðu flóttamanns, og því fylgir sjálfkrafa atvinnuréttindi. Þess í stað var tekin ákvörðun um að virkja fjöldaflóttaákvæðið og veita öllum miklu styttra og takmarkaðra dvalarleyfi sem fylgir ekki sjálfkrafa atvinnuleyfi. Ég vil bara heyra hvað hv. þingmanni finnst um þá ákvörðun að gera þetta svona.