Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[12:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þetta er áhugaverð umræða sem er hérna og nokkur atriði sem þarf að impra á, minnast aðeins á hérna og greiða aðeins úr. Til að byrja með skulum við fara aðeins yfir tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar eins og ráðherra leggur fram, með leyfi forseta:

„Fjölgun umsókna undanfarinn áratug sýnir hversu mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist við, eftir atvikum með laga- og reglugerðarbreytingum, og aðlagað verndarkerfið að þeirri þróun sem á sér stað á hverjum tíma. Verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og byggt þannig upp að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu mála sinna. Á sama tíma er nauðsynlegt að tryggja að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki.“

Fjögur atriði sem þarf að ræða aðeins um. Byrjum aðeins á „mikilvægt að stjórnvöld geti brugðist við“ en það segir einnig í greinargerð með þessu frumvarpi að „á árunum 2016 og 2017 kom í ljós að íslenskt verndarkerfi var að mörgu leyti berskjaldað fyrir ásókn þeirra sem sendu inn bersýnilega tilhæfulausar umsóknir …“ sem var áhugavert út af fyrir sig á þeim tíma en þá var gerð einmitt reglugerðarbreyting og í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr fjölda bersýnilega tilhæfulausra umsókna báru verulegan árangur.“

Það þurfti ekki lagabreytingu. Allt í lagi.

Það þarf að geta „aðlagað verndarkerfið að þeirri þróun sem á sér stað á hverjum tíma“. Það er mjög ógreinilegt í þessu frumvarpi hvaða þróun er verið að vísa í og tilefni þess að það þurfi að bregðast við slíkri þróun. Þróunin er að sjálfsögðu þannig bara úti í heimi að það koma upp atvik, stríð og fleira, sem gera það að verkum að það eru nýir hópar flóttafólks sem leggja af stað út í hinn stóra heim. Þá skiptir einmitt máli, eins og er sagt hérna, með leyfi forseta, aftur:

„Verndarkerfið þarf að vera í stakk búið og byggt þannig upp að þeir sem raunverulega eiga rétt á alþjóðlegri vernd fái skjóta og mannúðlega afgreiðslu …“

Þetta er algjört lykilatriði í þessu verndarkerfi. Spyrjum okkur einmitt þessarar spurningar. Það kemur einhver hingað og bankar upp á og segir: Ég þarf á alþjóðlegri vernd að halda. Gerum ráð fyrir því að hérna séu allir heiðarlegir og það sé nauðsynlega þörf á vernd samkvæmt öllum þeim alþjóðaskilmálum sem við höfum lögfest hérna, að við séum sammála því að þessi beiðni sé rétt. Skyldur okkar eru þá að taka við viðkomandi. Það er ekkert flóknara en það. Við getum ekki sagt: Nei, fyrirgefið, hérna er bara fullt. Það virkar ekki, þannig að spurningin sem hefur oft komið hérna upp, hvað viltu taka á móti mörgum? á ekki við. (Gripið fram í.) Hún á ekki við. Ég skrifaði hana hérna í athugasemdir mínar við umræðuna, nákvæmlega hver sagði þetta í þessari umræðu skiptir ekki máli. Hún var borin upp. Hvað viltu taka á móti mörgum? hefur verið sagt í umræðunni líka, bæði hérna inni á þingi og almennt séð í samfélagslegri umræðu, þannig að við skulum hafa það algerlega á hreinu. Við erum ekki með teljara á landamærunum sem segir: Nú er fullt. Það virkar ekki þannig. Það gæti hljómað eins og hrúgan gæti komið hingað, þúsundir gætu komið hingað og við gætum ekkert við því gert. Jú, það sem við getum gert við því er að bregðast við með því að búa til pláss, því miður, með því að vinna í alþjóðlegri samvinnu með öðrum löndum um hvernig er hægt að taka á móti þessu flóttafólki. Það er það sem þarf að gera og hvernig þetta frumvarp leysir þennan vanda sem er talað um hérna, að geta brugðist við, aðlaga verndarkerfið, skjóta og mannúðlega afgreiðslu og passa upp á misnotkun sé í lágmarki — þá verð ég að spyrja hvernig þetta frumvarp bregst við því. Hvar er talað um hvaða misnotkun er í gangi? Hvergi. Það er bara sagt að það þurfi að tryggja að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki. Það eru engin atriði hérna sem útskýra það nákvæmlega hver af þessum 11 atriðum sem frumvarpið snýst um séu til að bregðast við einhvers konar misnotkun. Það skiptir rosalega miklu máli og það er rosalega stór ábyrgð að dylgja um að það sé misnotkun í gangi og að eitthvað í þessu frumvarpi sé til að koma til móts við það. Því ef svo er verður að segja það skýrum orðum: Þetta er misnotkunin.

Í umræðunni hérna áður en frumvarpið var lagt inn var talað um t.d. fölsuð vegabréf sem við höfum síðan komist að að er í rauninni ekki vandamál, alls ekki, og eru mjög góðar ástæður fyrir að mörgu leyti, t.d. af því að þegar fólk er á flótta lendir það í alls konar vandamálum einmitt með skilríki. Það eru bara mjög málefnalegar ástæður fyrir því að fólk í slíkri stöðu sé í einmitt þeim vanda. Það þýðir ekki að það sé misnotkun. Það hefur verið talað um glæpasamtök. Þar eru glæpasamtök að misnota fólk á flótta, þar er ekki fólk á flótta að misnota kerfið. Þess vegna er mikilvægt að það sé sagt hérna að misnotkun á kerfinu sé í lágmarki þannig að það sem glæpasamtök eru að gera er ekki að misnota kerfið, þau eru að misnota flóttafólkið sem á rétt á vernd í þessu kerfi, tvöfaldri vernd ef glæpasamtök eru að herja á það aukalega.

Förum bara rétt yfir þessi atriði sem er talað um að séu einhvers konar viðbrögð við þessum atriðum, geta brugðist við, aðlaga kerfið eftir þróun, skjóta og mannúðlega afgreiðslu og misnotkun á kerfinu í lágmarki. Það eru til að byrja með umsækjendur sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki. Þessi þróun var 16% umsókna árið 2018, 24% árið 2019, 52% árið 2020 og 21% árið 2021. Það er sagt að þetta hafi verið mjög mikil fjölgun hér á landi miðað við annars staðar. Hérna er gott að byrja á því að þetta fólk er búið að votta sem flóttafólk almennt séð, hvort sem það er þá með verndina í því landi sem það var fyrst viðurkennt sem flóttafólk eða hvort það yrði þá viðurkennt hérna líka. Það er áfram flóttafólk frá því upprunalandi sem það kemur frá. Ég sé ekki endilega hvert vandamálið er þarna, það er ekkert sérstaklega útskýrt. Er það markmið þessa frumvarps að snúa því fólki sem hefur fengið alþjóðlega vernd annars staðar bara við í Leifsstöð eða í upprunalandi eða einhverju þvílíku? Það er mjög ógreinilegt hverju þetta ákvæði á að áorka. Til hvers? Af hverju er þetta vandamál? Hvaða skilvirkni, eða hvað sem það er, getur þarna verið á bak við? Hver eru áhrifin af þessu ákvæði? Það er mjög ógreinilegt. Við vitum það ekki. Er markmiðið að það séu bara 5% þeirra sem sækja um sem hafa fengið alþjóðlega vernd annars staðar? Er verið að reyna að stilla, er verið að reyna að setja einhvern teljara á landamærin hvað þetta varðar eða hvað er verið að gera? Af hverju er verið að skipta sér eitthvað af þessu? Ég skil það ekki.

Síðan er sjálfkrafa kæra. Þetta finnst mér rosalega áhugavert ákvæði. Það er vissulega rakið að það eru mjög margir, mjög hátt hlutfall, sem kæra sjálfkrafa niðurstöðu Útlendingastofnunar. Hérna er verið að segja að þegar komin er niðurstaða þar fari það bara beint í kærunefnd útlendingamála. Það er bara sett af stað strax, sjálfkrafa gert ráð fyrir því að það verði gert og þá byrja allir frestir að fara í gang þá og þegar. Það sem það gerir á móti er að það minnkar tímann sem fólk hefur til að undirbúa kæru, til að reka mál sitt, þannig að tímasparnaður hérna hjá hinu opinbera, skilvirkni sem er ekki sagt í rauninni hversu mikil, hversu margir dagar eru, það ætti að vera mjög auðvelt að setja það fram en það er ekki gert, miðað við þetta er það vika eða eitthvað svoleiðis. Þvílík bót á skilvirkni eða eitthvað því um líkt. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna það þarf endilega að leggja eitthvað svona fram ef það er bara verið að spara einhverja viku eða eitthvað þvílíkt. Hérna er ég bara að giska að vísu, en það lítur út fyrir að þetta sé u.þ.b. á því svæði miðað við umræðurnar hérna í þingsal. Það sem skerðist á móti á þessari viku eru einmitt mannréttindi fólks. Þetta er tímasparnaður fyrir hið opinbera á móti réttindum fólks til að reka mál sitt með öllum þeim tilbúnaði sem til þarf. Það er verið að minnka þann tíma. Þar af leiðandi eru allir tímafrestir og allt í rauninni, allur undirbúningur, styttri og verri, það er erfitt að afla gagna, eins og kom fram í máli hv. þingmanns Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þar sem þurfti að afla gagna úr pósthólfi látins manns í öðru landi sem tók mjög mikinn tíma. Það á að stytta þennan frest.

Þriðja atriðið var endurtekin umsókn. Það er heldur ekkert útskýrt hvaða hagræðingu eða skilvirkni er verið að reyna að ná fram hérna og hversu mikill ávinningur væri af því. Hvert er tilefnið? Af hverju þarf að gera þessa aukaflokkun og hversu mikil skilvirkni á að vera af því og hversu málefnaleg er sú skilvirkni? Ekkert fjallað um svoleiðis.

Fjórða er vinnsla persónuupplýsinga, ég ætla að renna aðeins yfir þetta, fimmta er varðandi umsóknir barna um alþjóðlega vernd, sjötta um skerðingu og niðurfellingu réttinda, mjög áhugavert, sjöunda er tafir á ábyrgð umsækjanda, áttunda er málsmeðferðartími umsókna barna um alþjóðlega vernd, níunda er meðferð mála um ríkisfangsleysi, tíunda er að verkefni stoðdeildar ríkislögreglustjóra verði lögbundin og ellefta er undanþága frá kröfu um tímabundið atvinnuleyfi. Í öllum þessum tilfellum, ef maður skoðar þau í samræmi við þetta tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar um hversu mikilvægt er að stjórnvöld geti brugðist við, þá er ekki sérstaklega útskýrt hver af þessum atriðum eru til að koma til móts við einhverja þróun og breytingar á verndarkerfinu sem þarf nauðsynlega að bregðast við. Það er ekki talað um það neitt sérstaklega með neinni nákvæmni hvað af þessum atriðum er til að tryggja skjóta og mannúðlega afgreiðslu á málum. T.d. sjálfkrafa kæra, ég sé ekki að það sé aukin mannúð í því ákvæði, sem var verið að fjalla um, ég ætla að skjóta á að það styttist um einhverja daga, það er vissulega fljótlegra, en það verður líka að vera mannúðlegra. Það er sett upp hérna í tilefni og nauðsyn.

Bara með því að fara í gegnum þetta frumvarp þá ætti öllum að vera ljóst að það er ekki nægilega vel rökstutt hvernig það á að koma til móts við stóryrði áður en frumvarpið er lagt fram um stjórnleysi í þessum málaflokki. Hvernig er þetta að koma í veg fyrir stjórnleysi? Hvaða stjórnleysi var verið að tala um? Af hverju er ekki hægt að hafa umræðuna á nákvæman hátt, sérstaklega frá dómsmálaráðherra? Af hverju getur dómsmálaráðherra ekki verið nákvæmari í orðum sínum en það að setja fram svona stórar, breiðar yfirlýsingar um að það sé misnotkun á kerfinu? Ég læt það duga, það er nóg að lýsa því þannig, að það sé stjórnleysi einmitt líka. Þegar ráðherra fer með slíkar stórar yfirlýsingar um vanda í þessu kerfi þá verðum við að ætlast til þess, við verðum að krefjast þess, að það sé útskýrt nákvæmlega hvað er að valda þessu stjórnleysi. Hvað er að valda þessari mismunun? Hvaðan er hún að koma? Hvernig lýsir hún sér? Hvaða lagagreinar eru það sem eru kannski að þvælast fyrir? En ekkert af því er gert. Það er ekki gerð nein tilraun til þess að útskýra fyrir þeim sem vilja í alvörunni lesa þetta frumvarp og reyna að skilja það. Hvaðan er þetta að koma? Gegn hvaða hópum er verið að beita þessu frumvarpi? Hvaða áhrif hefur málsmeðferð umsókna barna um alþjóðlega vernd? Á hvaða hóp hefur það áhrif? Hvaða áhrif hefur það á umsækjendur sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki? Hvaða hópur er það aðallega sem er verið að tala um? Á undanförnum árum höfum við sérstaklega bent á að það varðar einmitt fólk sem er verið að senda aftur til Grikklands t.d. og Ungverjalands, ekki fólk sem er verið að senda til annarra landa eins og Þýskalands eða eitthvað svoleiðis. Það hefur enginn verið að kippa sér neitt sérstaklega mikið upp við það alla jafna nema kannski það eigi við um einhver börn eða eitthvað þvílíkt og varla þá einu sinni. En ef það er verið að senda til Grikklands eða Ungverjalands, og nú kannski Ítalíu, þá hefur fólk sagt eitthvað við því af því að ástandið þar er ekki viðunandi. (Forseti hringir.) Ég kalla eftir meiri nákvæmni, meiri efnislegri umræðu í alvörunni, minna af yfirlýsingum eins og dómsmálaráðherra hefur verið með (Forseti hringir.) og nákvæmum svörum við þessu tilefni sem er verið að setja fram hérna, misnotkun á kerfinu. Hvað er það eiginlega?