Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:01]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé óhætt að taka undir þetta með hv. þingmanni. Það er athyglisvert að þrátt fyrir að hér sé verið að leggja þetta frumvarp fram í fjórða eða fimmta skipti í einhverri mynd þá er ekki að finna neina greiningu á afleiðingum þessa ákvæðis í greinargerð frumvarpsins. Það er engin greining á því hvað þetta þýðir fyrir sveitarfélögin eða hvaða afleiðingar þetta mun hafa fyrir fólkið. Er ekki bara hætta á því að með því að lögfesta ákvæði af þessu tagi sé beinlínis verið að framkalla og ala á heimilisleysi á Íslandi? Það er alla vega það sem ég óttast svolítið og mér finnst að ræða þurfi um hér í þessum sal. Það er í öllu falli mjög athyglisvert að hér skuli lagt fram frumvarp með ákvæðum sem fela í sér afdrifaríka breytingu þar sem hópur fólks sem hefur talist hafa ákveðin réttindi mun hér eftir heyra undir annan ráðherra en málefnasviðið heyrði áður undir samkvæmt forsetaúrskurði. Í því samhengi vakna t.d. spurningar um það hvaða nefnd eigi að taka þetta fyrir. En fyrst og fremst er sérkennilegt að við séum að ræða þetta án þess að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra taki nokkurn þátt í því að málið gangi svona fram, að dómsmálaráðherra stígi inn og leggi til ákvæði sem heyra undir málefnasvið annars ráðherra. Þetta á líka við um atvinnuréttindaþáttinn, nokkuð sem ég held að allir hér inni séu sammála um, nokkuð sem hefði mátt samþykkja fyrir löngu í þverpólitískri sátt. En einhverra hluta vegna er þeim þætti einmitt troðið inn í þennan pakka til að reyna að stilla þingheimi upp við vegg. Þetta er í rauninni sú saga sem við höfum horft upp á í útlendingamálum síðustu ár og þess vegna hreyfist ekkert, (Forseti hringir.) það gerist ekkert, við sjáum engar framfarir þegar kemur að málsmeðferð og skilvirkni eða mannúð og mannréttindum í þessum efnum.