Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:21]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir mjög fína yfirferð um þetta mál og auðvitað var tæpt á mörgu sem bent hefur verið hér á, t.d. að eftir allan vandræðaganginn og allt havaríið sem við urðum vitni að núna á dögunum, þrátt fyrir öll orðaskiptin á milli hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra, ágreininginn milli flokkanna og þar fram eftir götunum, þá er þetta málið tiltölulega lítið breytt miðað við það hvernig það var a.m.k. á síðasta þingvetri. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessi vetur fer með þetta endurunna mál.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins um þetta þegar við erum að tala um 30 daga regluna. Þá er verið að tala um að það falli niður þjónusta eftir 30 daga en það er auðvitað fullt af undantekningum nefndar og sumar þeirra raktar í kafla þar sem er verið að fara yfir mat á áhrifum frumvarpsins. En það sem ég ætlaði kannski að inna þingmanninn eftir er að það er sagt í greinargerðinni um þetta tiltekna dæmi, og ég vitna orðrétt í greinargerðina:

„Dæmi um hegðun sem verður metin sem skortur á samstarfsvilja er þegar útlendingur hefur ekki farið sjálfviljugur af landi brott innan þess frests sem honum hefur verið veittur og þegar hann hefur horfið, torveldað eða komið í veg fyrir að unnt sé að framkvæma ákvörðunina, svo sem að aðstoða ekki stjórnvöld við öflun ferðaskilríkja eða annarra gagna sem þörf er á vegna flutningsins, til dæmis heilbrigðisgagna.“

Nú er þetta sett inn í frumvarpið eins og þetta eigi að vera svolítið sjálfsagt en mér skilst á þeim sem hafa unnið inni í kerfinu, og ég hef náttúrlega ekki þá reynslu að baki, að þetta sé í raun og veru ofboðsleg hindrun, þetta litla atriði, að afla skilríkja, gagna og annars og aðstoða yfirvöld við það. Þannig að ég ætlaði að spyrja hv. þingmann, jafnvel þótt allar þessar undantekningar (Forseti hringir.) séu þuldar upp, hvort henni finnist ákvæðið samt halda (Forseti hringir.) gagnvart þeim hópi sem svo sannarlega er ekki að gera neitt til þess að tefja eða hindra stjórnvöld með einum eða neinum hætti í þessu.