Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[13:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel raunar að það ríki breið sátt í íslensku samfélagi um að við viljum koma vel fram við flóttafólk og betur en við gerum nú þegar. Þetta frumvarp virkar í þveröfuga átt við það. Ég ætla ekki í breiða sátt við Sjálfstæðisflokkinn ef það er það sem hv. þingmaður er að fiska eftir. Ég tel mikilvægt að það sé breið sátt í íslensku samfélagi um að við viljum gera betur og það er þannig, kannanir hafa sýnt það endurtekið, að samfélagið á Íslandi vill taka betur á móti fleira flóttafólki heldur en við gerum nú. Það er algjörlega skýrt. Ég ætla ekki ná samkomulagi við hundaflautuna hér í þessum sal sem reynir að egna upp einhvern ótta gagnvart þessum hópi sem ég veit að samfélagið allt vill taka betur á móti. Ég veit að það er fullkomið samkomulag um það innan íslensks samfélags þótt það séu einhverjir öfgahópar hér eða þar sem vilja reyna að breyta því.

En ég varð satt best að segja, virðulegi forseti, fyrir svolitlum vonbrigðum vegna þess að ég hélt að hv. þingmaður væri kominn hingað til að segja okkur hvers vegna honum finnst góð hugmynd að henda flóttafólki á götuna. Það var það sem ég var að kalla eftir. Það að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sé í útlöndum að tala við kollega sína um innflytjendamál — mér finnst það svolítið kaldhæðnislegt, hv. þingmaður, vegna þess að hér erum við að tala um innflytjendamál í þingsalnum sem hann er hluti af. Ef hann hefur svona mikinn áhuga á þessu máli þá hefði hann átt að vera hérna.