153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[14:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi þessa tilfinningu um að dómsmálaráðherra sé að nota andrúmsloftið til að koma í gegn einhverjum breytingum, það er náttúrlega akkúrat það sem er að gerast. Þetta frumvarp er 90–95% endurtekið efni en 5% viðbót sem varðar atvinnuréttindi sem tengjast dvalarleyfi, sem er beintengt þessum stóra hópi úkraínsks flóttafólks sem kom til landsins í byrjun árs. Þessu var bætt inn til þess að setja smá sætuhjúp utan um allt gumsið til að það væri auðveldara að kyngja restinni. Varðandi fyrirvara Sjálfstæðisflokksins sem virðist vera eini flokkurinn, eins kaldhæðnislegt og það kann að virðast, sem samþykkir þetta mál ekki án fyrirvara út úr sínum þingflokki þá virðist mér á umræðum að sá fyrirvari hafa snúið að því ákvæði sem var tekið út hér á milli framlagninga, sem snýst um sjálfvirka endursendingu fólks sem er að flýja verndarkerfi í löndum sunnarlega í Evrópu. Það sýnir kannski dálítið mikið hvaða hug Sjálfstæðisflokkurinn ber til flóttafólks. Mál af þessu tagi hafa ítrekað komist í fjölmiðla og orsakað gríðarlega hörð viðbrögð hjá almenningi. Það hafa verið mótmæli, það hafa verið undirskriftalistar, það hefur verið gríðarleg samstaða með þessu fólki sem getur ekki treyst á að börnin þeirra fái menntun, að þau fái heilbrigðisþjónustu, að þau séu tryggð gegn ofbeldi eða fái einu sinni húsnæði eða aðrar nauðþurftir í gríska verndarkerfinu. (Forseti hringir.) Þetta er fólkið sem Sjálfstæðisflokkurinn er svo spenntur fyrir að losna sem hraðast við (Forseti hringir.) að hann setur fyrirvara við mál eigin ráðherra vegna þess að ákvæðið er ekki lengur inni.