Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

útlendingar.

382. mál
[14:46]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég ætla að nota þær fimm mínútur sem ég fæ hér í seinni ræðu til að árétta ákveðinn hlut sem hæstv. ráðherra hefur tekist að snúa út úr í almennri umræðu með þeirri tuggu að við í stjórnarandstöðunni getum ekki ákveðið okkur hvort þetta frumvarp muni breyta einhverju eða ekki. Það er auðvitað ekki rétt að við höfum sagt að frumvarpið breyti engu. Það sem við höfum ítrekað bent á er að það leysir engan vanda. Þær tillögur sem gerðar eru í þessu frumvarpi breyta engu þegar kemur að því að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir við móttöku flóttafólks. Hins vegar breyta þessar tillögur heilmiklu.

Þegar ég segi við samstarfsfólk mitt hér á þingi, þegar við vinnum ágætlega saman og svona kannski minna í sviðsljósinu, þá vek ég athygli á því að þessu frumvarpi sé ekki ætlað að leysa neinn vanda. Því er ekki ætlað að, hvað á að segja, fækka Úkraínumönnum sem leita hingað eða annað. Þá veltir fólk fyrir sér: Bíddu, ef þetta leysir engan vanda og þetta eykur ekki skilvirkni, hver er tilgangurinn með frumvarpinu? Ég held að fólk velti því fyrir sér, og ég held að margir séu komnir á þá niðurstöðu að það hljóti bara að vera einhver tilgangur með þessu frumvarpi, af hverju er annars verið að leggja svona mikla áherslu á þetta af hálfu hæstv. dómsmálaráðherra núna í fimmta skipti? Þannig að ég ætla að fara í örstuttu máli yfir það hverju þetta frumvarp breytir og til hvers það er lagt fram. Það er nefnilega þannig að þetta frumvarp er í raun ágætissamantekt á þeim málum sem Útlendingastofnun hefur tapað, fyrir ýmist kærunefnd útlendingamála eða dómstólum. Það er hægt að lesa á hverju einasta ákvæði. Þegar maður þekkir málaflokkinn þá koma mál upp í hugann, einstök mál þar sem Útlendingastofnun, eins og hefur verið bent á hér í þingsal fyrr í dag, hefur verið gerð afturreka með sína framkvæmd. Um þetta eru mörg dæmi, hér hefur t.d. verið bent á þjónustusviptinguna þar sem flóttamönnum var hent út á götu fyrir að sýna ekki samstarfsvilja. Það var fyrsta tilraunin til að neyða fólk til að taka Covid-próf, þó að engin heimild í lögum hafi verið fyrir því að neyða fólk til þess. Þá þurfti að finna einhverja aðra leið sem var að svipta það þjónustu. Kærunefnd útlendingamála las hins vegar lögin betur en Útlendingastofnun og komst að þeirri niðurstöðu að það væri engin heimild til að svipta fólk þjónustu vegna þess að það vildi ekki fara í Covid-próf. Útlendingastofnun var gerð afturreka með þetta. Þetta er auðvitað eitt af því sem á að „laga“ með þessu frumvarpi, snertir kannski ekki marga einstaklinga en eru viðbrögð við því að, aftur, Útlendingastofnun hefur verið gerð afturreka með sína, ég ætla að leyfa mér að nota orðið mannfjandsamlegu framkvæmd.

Annað dæmi varðar þessa 12 mánaða fresti sem var komið inn árið 2016 í lögin og eru ein mesta réttarbót sem hefur verið gerð hér á landi, ekki bara fyrir flóttafólk sem þá þarf ekki að bíða árum saman eftir niðurstöðu um það hvort Ísland ætli yfir höfuð að opna málið eða ekki og síðan er það flutt úr landi, heldur átti staða fólks að vera þannig að ef stjórnvöld voru ekki búin, með sínum hætti, að klára málið innan 12 mánaða ætti viðkomandi rétt á því að fá niðurstöðu í máli sínu. Í lögunum nú þegar segir að þetta eigi ekki við ef umsækjandi var sjálfur ábyrgur fyrir töfum á málsmeðferðinni. Hljómar rökrétt, er það ekki? Þær breytingar sem hér á að gera — það er svo langt, ákvæðið, og þetta er svo mikil upptalning hérna sem á að verða til þess að fólk er svipt þessum rétti, en þarna má í rauninni sjá upptalningu á þeim úrskurðum kærunefndarinnar og dómum dómstóla á Íslandi þar sem ekki hefur verið fallist á að umsækjandi hafi sjálfur tafið málið heldur hafi tafir á málsmeðferð raunverulega verið á ábyrgð stjórnvalda sjálfra. Það þarf náttúrlega að laga þetta vegna þess að það gengur ekki að eitthvert fólk sé að fara öðlast einhver réttindi hér á landi.

Það sem ég er að reyna að benda á, og gæti farið með fleiri dæmi ef ég hefði meiri tíma, nú á ég bara nokkrar sekúndur eftir, er að í stuttu máli er þessu frumvarpi ekki ætlað að auka neina skilvirkni. Því er ekki ætlað að bæta kerfið á neinn hátt. Því er ekki ætlað að laga neina vankanta á lögum um útlendinga sem hafa verið stjórnvöldum eitthvað til trafala í sinni málsmeðferð. Þeim er ætlað að stoppa í þau göt sem fólk hefur sloppið í gegnum með því að fá úrskurð í máli sínu sem segir að framkvæmdin hafi verið ólögmæt. Þessu frumvarpi er þannig ætlað að lögfesta framkvæmd stjórnvalda sem dæmd hefur verið ólögmæt, einfaldlega.