Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings o.fl.

89. mál
[15:34]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um mjög áhugavert mál að ræða, um að fela ríkisstjórninni að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum sem hafa ákveðin markmið, skilgreina alþjónustu með fullnægjandi hætti, skilgreina hlutverk allra aðila á raforkumarkaði með hliðsjón af raforkuöryggi og tryggja raforkuöryggi og það að veita Orkustofnun heimild til inngripa á raforkumarkaði svo hægt sé að tryggja raforkuöryggi á almennum markaði og líka að sjálfsögðu að leiða til orkuskipta.

Ég tel hins vegar að þessi tillaga sé þeim annmarka háð að við erum búin að samþykkja þriðja orkupakkann, við erum búin að samþykkja að gangast undir orkustefnu ESB sem er gjaldþrota, von der Leyen er búin að lýsa því yfir, það eru neyðarinngrip í orkumarkað Evrópusambandsins og þeir eru líka búnir að lýsa því yfir að þeir ætli líka að fara í algjöra grundvallarendurskoðun á raforkumarkaði ESB. Hann er meingallaður. Hvernig er hann gallaður? Jú, hann er gallaður með þeim hætti að hann er búinn til eins og hlutabréfamarkaður, verðbréfamarkaður. Það er hæsta verðið sem myndar verð á allri vörunni alls staðar. Það væri eins og að hlutabréfamarkaður eða þannig — það er alltaf verið að selja kannski hálft prósent af markaðnum, eitt prósent, bara þau bréf sem eru til sölu í hlutabréfum í hverju fyrirtæki á hverjum tíma, það myndar verðið á vörunni. En hvað er verið að gera á raforkumarkaðnum? Það er verið að selja alla raforkuna á hverri einustu sekúndu, alltaf. Það er grundvallarmunur að vera að selja 1% eða minna en það á hlutabréfamarkaði sem myndar heildarverð á fyrirtæki en síðan á raforkumarkaðnum er verið að — það væri eins og allir hlutabréfamarkaðir væru að selja öll fyrirtækin í heild, 100%. Þetta er grundvallarmisskilningur á markaðslögmálum og sölu á vöru sem er þarna í gangi. Þeir tryggja það líka að dýrasti framleiðandinn tryggir sig alltaf. Svo geta hinir grætt.

Málið er að raforka er eins og vatnið. Þetta á að vera til almenningsnota og er svokallað „utility“ og er háð allt öðrum lögmálum en sala á verðbréfum, í hinum kapítalíska heimi meira að segja. Íslenskt samfélag, sem er stjarnfræðilega ríkt samfélag af náttúruauðlindum, ein auðugustu fiskimið í heimi, við höfum gríðarlegt magn af orku í landinu, alveg einstaklega fallega náttúru sem við seljum ferðamönnum og ég tel að þessi tillaga hér þar sem verið er að reyna að leggja til nauðsynlegar breytingar á lögum og reglugerðum — það er verið að reyna að gera nauðsynlegar breytingar á ESB-lögum um raforkuviðskipti og reglugerðum Evrópusambandsins um raforku. Það er verið að reyna að tryggja raforkuöryggi á Íslandi innan ESB-laga um raforkuviðskipti, ekki íslenskra laga. Jú, við erum búin að samþykkja þessi lög. Við erum búin að samþykkja lög um raforkuviðskipti yfir landamæri, svo undarlegt sem það nú er, við stundum engin raforkuviðskipti yfir landamæri, ekki nokkur. Samt er kominn lagabálkur sem við erum búin að parkera hérna, reglugerð inn í íslensk lög og ég get lofað ykkur því, þingheimur, að þessi innleiðing sem átti sér stað með þriðja orkupakkanum mun aldrei standast neitt, ef það kæmi sæstrengur hingað, aldrei nokkurn tímann. Þá þyrfti að fara í heildarendurskoðun á öllu klabbinu, öllum raforkulögum Íslands, með hliðsjón af sæstrengnum. Þetta er algjör sýndarmennska, þessi innleiðing, algjör. Þetta er svo mikil sýndarmennska að maður hreinlega trúir því ekki. Þetta er að sýna sig úti í heimi og þetta skrifar ESA upp á, Eftirlitsstofnun EFTA samþykkir þessa innleiðingu. Jú, jú, hún gerir það og það vita allir að þetta mun aldrei ganga upp ef það kæmi sæstrengur. Það vita allir. Þetta er eins og með nýju fötin keisarans. Hann er ekki í neinum fötum, það þarf bara að segja það. (Gripið fram í: Og allir allsberir. )Allir allsberir.

Annað sem er líka hérna undir er það að við erum hins vegar að misnota kerfið. Ísland selur raforku inn á kerfið á meginlandinu og við erum að selja uppruna íslenskrar raforku, hinnar grænu fallegu raforku sem allir eru að dásama. Það segir hérna í greinargerð tillögunnar:

„Ísland er stórframleiðandi endurnýjanlegrar raforku sem virkjuð er með nýtingu vatnsafls- og jarðvarma.“

87% af uppruna raforku Íslands — það er búið að selja hana. 87% af raforku. 29% eru framleidd úr kjarnorku. Restin, 57%, er framleidd með jarðefnaeldsneyti og það er verið að halda fram að við séum stórframleiðandi endurnýjanlegrar raforku. Það er bara rangt. Það er bara rangt út frá lögum sem stjórna raforkuumhverfi á Íslandi. Það er búið að selja þetta. Þetta er alveg með ólíkindum. Við erum raunverulega að hjálpa Evrópusambandinu að menga sem þessu nemur. Það er líka enn ein hræsnin. Það er hræsni nr. 2, við getum kallað það þannig.

En ég tel að þessi tillaga sé að mörgu leyti, ja, það er góður vilji í henni og ég er sammála því að það eigi að forgangsraða raforkuframleiðslu til orkuskipta. Við eigum að gera það. En hvernig í ósköpunum eigum við að geta gert það innan þriðja orkupakkans og innan orkustefnu Evrópusambandsins? Ég get ekki séð það þegar þetta er selt á markaði. Ég get ekki séð það. Jú, það er alveg hægt að prófa eigendastefnu. En viti menn, Landsvirkjun, herra forseti, stærsti raforkuframleiðandi landsins, er ekki með neina eigendastefnu. Það er ekki til skjal sem heitir eigendastefna. Það er nú enn eitt. Það er alveg með ólíkindum að hún sé ekki til. Ég get talað um fleiri fyrirtæki eins og Landsbanka Íslands sem er í ríkiseigu. Það er engin eigendastefna þar. Hún miðast bara við bónuskerfi stjórnendanna og ekkert annað.

Ég tel að þetta mál sé að mörgu leyti áhugavert. En maður endar alltaf — veggurinn er alltaf fyrir framan okkur. Það er alltaf þriðji orkupakkinn sem er fyrir framan okkur og takmarkar okkur. Það kemur fram í greinargerðinni:

„Í samræmi við innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins í íslenska löggjöf ber stjórnvöldum að skilgreina hverjir njóti svokallaðrar alþjónustu (e. public service obligation) á innlendum orkumarkaði.“

Það er innleiðing þriðja orkupakkans sem stjórnar skilgreiningu á alþjónustu á innlendum raforkumarkaði, ekki Íslendingar, ekki fullveldi íslensku þjóðarinnar, við stjórnum þessu ekki. Þetta er eitt mesta valdaafsal og fullveldisafsal í sögu þjóðarinnar sem er bara sorglegt.

Annað í þessu er varðandi sjálfan EES-samninginn sem gekk í gildi 1994, undirritaður 1992. Þar er fjallað um raforkusamvinnu. Það var fjallað líka um raforkusamvinnu í kolasamningunum þegar kola- og stálbandalagið var stofnað 1951. Af hverju? Jú, af því að Þjóðverjar og Frakkar voru búnir að vera í stríðum, tveimur hrikalegum heimsstyrjöldum, þá vildu þeir ná utan um kolaframleiðsluna og stálframleiðsluna, orkuframleiðsluna og stálframleiðsluna. Af hverju? Jú, þetta eru grundvallaratriði í framleiðslu á stríðstólum, skriðdrekum og öðru. Það byggðist á samvinnu. Breytingin varðandi orkusambandið — lagagrundvöllur þess er í Lissabon-sáttmálanum 2009, 15 árum eftir að við tökum EES-samninginn í gildi, 15 árum eftir. Lissabon-sáttmálinn sem er sáttmáli sem uppfærir grundvallarskjöl Evrópusambandsins — við erum líka með Nice-sáttmálann, við erum með Amsterdam-sáttmálann og fleiri sáttmála — gekk til þjóðaratkvæðagreiðslu í mörgum þessum ríkjum. Það voru þjóðþing ríkjanna, ESB-ríkjanna, sem samþykktu Lissabon-sáttmálann. Þar er í 194. gr. lagður grundvöllur að orkusambandi Evrópu með það að markmiði að hafa sameiginlega orkustefnu ESB og stuðla að orkusambandi, „union“ er hugtakið sem er notað. Evrópusambandsríki samþykkja þetta, það er ekki eitt einasta EFTA-ríki spurt, ekki eitt. Ekki var Noregur spurður, ekki var Ísland spurt og ekki var Lichtenstein beðið um að samþykkja og innleiða Lissabon-sáttmálann, EES-samninginn. Það sýnir nú lagalegan grundvöll þess að þriðji orkupakkinn skyldi hafa verið innleiddur í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins sem Ísland samþykkti aldrei hvað Lissabon varðar. Ég tel ekki ástæðu til að halda fleiri ræður um þriðja orkupakkann en það sýnir hvers konar gjörningur það var á Alþingi á sínum tíma. Það var ekki búið að kjósa mig til þings þá en það var öflug andstaða, m.a. í mínum flokki, Flokki fólksins, sem barðist gegn þriðja orkupakkanum og var fyrstur til í þeirri baráttu.

Ég tel að þetta sé mjög áhugaverð tillaga til þingsályktunar um breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings og forgangsröðun raforkuframleiðslu til orkuskipta en það er fjallað um það í orkustefnu Evrópusambandsins. Ég óska bara tillögunni alls hins besta og ég vona að sú umræða og þær umsagnir sem koma með þessari tillögu leiði til þess að við förum að endurskoða veru okkar í orkusambandi ESB. Það er samband sem við eigum ekki að vera í og við eigum ekki að vera að reyna að komast inn í Evrópusambandið bakdyramegin. Það á þjóðin að ákveða.