153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[15:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta á dagskrá hér, stöðuna í heilbrigðiskerfinu. Ég vil byrja á því, fyrst ég er staddur hér og hef tækifæri til, að óska hv. þingmanni til hamingju með nýtt formannsembætti. Það er alveg rétt að það standa frammi fyrir okkur miklar áskoranir þegar kemur að heilbrigðisþjónustu, hafa gert í langan tíma. Það er ekki hægt að fullyrða hér að þetta sé allt saman brostið og allt saman á heljarþröm, eins og hv. þingmaður fór yfir, ef ég einfalda mál hv. þingmanns og formanns Samfylkingar. Staðreyndin er sú að við erum búin að auka hér að raungildi framlög til heilbrigðismála um 12%. Við getum tekið eitt dæmi, af því að hv. þingmaður kom inn á Landspítala – háskólasjúkrahús. Árið 2017 var spítalinn með 60 milljarða á fjárlögum. Hvað er hann með í dag? Á næsta ári erum við að tala um 95 milljarða tæpa á fjárlögum. Þetta er 35 milljarða árlegt framlag. Það hefur fylgt þróun og það var bætt verulega inn í ársgrunninn 2018. Þetta er eitt dæmi. Er þetta dæmi um það að við erum að mæta áskorunum sem við stöndum sannarlega frammi fyrir? Já. Er sá er hér stendur búinn að byggja upp of miklar væntingar? Ég met svo ekki. Þarf að gera betur víða? Já. Er mönnunin áskorun? Hún er áskorun. Við þurfum líka, og ég hef sagt það og sett í forgang, að ná jafnvægi í þetta kerfi okkar og nýta það allt, auka skilvirkni í því. Það þýðir að við þurfum m.a. að ná fram samningum við sérfræðilækna, til að þetta kerfi okkar nýtist betur.