Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

lyfsala utan apóteka.

174. mál
[17:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hv. þingmaður vísar í breytingu á lyfjalögum, jákvæða breytingu, og ég tek undir með hv. þingmanni um þessa undanþáguheimild til að auka aðgengi og bæta. Það er hárrétt að það er Lyfjastofnun sem veitir þessa undanþágu frá ákvæði 1. mgr. til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun og slíkar undanþágur má aðeins veita þar sem ekki er starfrækt lyfjabúð eða lyfjaútibú. Þessi listi er birtur á vef Lyfjastofnunar og nær yfir þau lyf, styrkleika og pakkningar sem heimilt er að selja.

Mig langar að vísa í meirihlutaálit hv. velferðarnefndar þegar breytingin átti sér stað sem varð hér á lyfjalögum, nr. 100/2020, svona sem aðdraganda að svari við seinni spurningu hv. þingmanns. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að lyf geta ekki talist almenn neysluvara og ekki skynsamlegt að rýmka slíkar heimildir úr hófi. Á hinn bóginn tekur meiri hlutinn undir það að mikilvægt kunni að vera að heimild sé til sölu tiltekinna lausasölulyfja á svæðum þar sem langt er í næstu lyfjaafgreiðslu með undanþáguheimild frá Lyfjastofnun.“

Þar segir enn fremur að mikilvægt sé að slík undanþáguheimild verði túlkuð þröngt og að útfærsla þeirra skilyrða sem um slíka heimild skuli gilda verði skýr.

„Í því sambandi áréttar meiri hlutinn að ákvæðinu er ætlaður sá tilgangur að bregðast við þeirri stöðu sem mögulegt er að komi upp í dreifðari byggðum landsins en ekki að heimild verði veitt til starfsemi af slíkum toga innan einstakra hverfa innan þéttbýlis. Lagt er til að heimildin sé bundin við svæði þar sem aðgengi að lyfjum er afar erfitt með tilliti til fjarlægða eða veðuraðstæðna.“

Lyfjastofnun hefur þannig túlkað þetta sem svo að það þurfi að vera a.m.k. 20 km í næsta apótek eða lyfjaútibú. Hefur Lyfjastofnun á grundvelli þessarar undanþágu heimilað 15 almennum verslunum víðs vegar um landið að selja tiltekin lausasölulyf. Þessi heimild nær nú yfir fjögur virk innihaldsefni, þ.e. verkjastillandi og hitalækkandi lyfin parasetamól og íbúprófen, sem að auki er bólgueyðandi, en einnig er heimilt að selja ofnæmislyfin Lóritín og Cetirizine. Markaðshlutdeild þessarar sölu liggur á bilinu 0,1–0,3% af heildarsölu dagskammta. Þannig má ætla að þetta hafi bætt aðgengi að lausasölulyfjum í fámennari og dreifðari byggðum og þannig náð tilgangi sínum þótt salan teljist ekki mikil í dagskömmtum þegar á heildina er litið.

Ég vil hins vegar árétta það hér, virðulegi forseti, og taka undir með hv. þingmanni að við verðum að skoða mjög vel reynsluna af þessu, vegna þess að þetta getur skipt mjög miklu máli fyrir þá íbúa sem þurfa greitt aðgengi að lyfjum, og hafa þó eins og ávallt álit þingsins og meiri hluta velferðarnefndar í þessu tilviki í heiðri og vega saman lýðheilsusjónarmiðin og aðgengi að heilbrigðisþjónustu þegar kemur að því að meta hvort beri að heimila fleiri almennum verslunum sölu tiltekinna lausasölulyfja og þá byggt á undanþáguheimild sem þessari. Ég held að það sé mjög mikilvægt að rýna reynsluna af þessu og hvernig þetta er að virka. En þegar við tölum um lýðheilsusjónarmið er það auðvitað í samhengi við hættu á misnotkun þegar kemur að lyfjum almennt og að við getum þá fylgst með því hvort um frávik er að ræða í sölu umfram það sem ætla mætti miðað við staðsetningu og hvar þetta nýtist í almennum verslunum.

Ég get nú kannski tekið þetta upp síðar í þessari umræðu en þakka hv. þingmanni fyrir að koma þessu máli á dagskrá.