Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Á 151. löggjafarþingi steig Alþingi mikilvægt skref fram á við þegar samþykkt var frumvarp um að bæta inn í hegningarlög greinum sem eiga að taka á stafrænu ofbeldi. Eins og á mörgum öðrum sviðum var nauðsynlegt fyrir lög og reglur að þróast í átt að breyttu samfélagi. Samkvæmt nýlegum tölum frá Sameinuðu þjóðunum varð ein af hverjum tíu konum fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi í nánum samböndum á síðastliðnum 12 árum. Skýrsla frá hjálparsamtökunum Plan International, sem kom út í upphafi Covid-faraldursins, sýndi fram á að yfir helmingur 15–25 ára stúlkna hafði orðið fyrir stafrænu ofbeldi og rannsóknir sýna einnig að á tímum heimsfaraldursins jókst þetta hlutfall til muna. Það er hins vegar ekki nóg að setja í lög bann og refsingar við stafrænu ofbeldi ef ekki fylgir með þekking og fjármagn til þess að takast á við þessi mál. Til mín hafa leitað þolendur slíks stafræns ofbeldis sem því miður þurfa að upplifa aðgerðaleysi lögreglunnar í málum sínum. Á það sérstaklega við um þá þolendur sem lenda í stafrænu ofbeldi af hálfu gerenda sem ekki eru staðsettir á Íslandi, því þessir glæpir, rétt eins og internetið sjálft, þekkja nefnilega engin landamæri. Á meðan lögreglan aðhefst ekkert í þessum málum líða þolendur fyrir stöðugt áreiti af hálfu gerenda, áreiti sem stundum gengur svo langt að sendar séu myndir af þolendum nöktum eða í kynferðislegum athöfnum til fjölskyldu, vina, vinnuveitenda og samstarfsaðila, myndir sem teknar voru af gerendum þegar þeir voru í nánum samböndum við þolendur.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við hér á þingi stöndum með þolendum stafræns ofbeldis og þrýstum á lögreglu að fylgja þessum málum eftir af þunga (Forseti hringir.) eins og nauðsynlegt er og nýta sér alþjóðlegt samstarf á þessu sviði eins mikið og hægt er.