Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

framhaldsfræðsla.

136. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir hönd allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti í 136. máli um frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsfræðslu er varðar stjórn Fræðslusjóðs. Helstu atriði frumvarpsins eru þau að með því er kveðið á um breytingu á 11. gr. laga um framhaldsfræðslu. Það er til að tryggja að ráðherra sem fer með mál er varða fræðslumál tilnefni einn fulltrúa í stjórn Fræðslusjóðs. Með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fluttist málaflokkur fræðslumála og málefni Fræðslusjóðs frá þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti til félags- og vinnumarkaðsmálaráðuneytis. Skipar því félags- og vinnumarkaðsráðherra nú formann stjórnar Fræðslusjóðs skv. 1. mgr. 11. gr. laga um framhaldsfræðslu.

Nefndin fjallaði um málið en ein umsögn um málið barst henni. Þá fékk nefndin á sinn fund gesti og er því greint frá því í nefndaráliti sem liggur frammi. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að Félag íslenskra framhaldsskóla, sem mælt er fyrir um í 2. málslið 1. mgr. 11. gr. laganna að tilnefni einn fulltrúa í stjórn Fræðslusjóðs, sé ekki lengur starfandi en að Skólameistarafélag Íslands hafi tekið við hlutverki þess. Því leggur nefndin til breytingu þess efnis. Til að gæta að innbyrðissamræmi í löggjöf og tryggja rétta notkun heitis heildarsamtaka stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu í 1. mgr. 11. gr. laganna leggur nefndin jafnframt til þá breytingu að heitið BSRB komi í stað orðanna Bandalag starfsmanna ríkis og bæja.

Í ljósi þess sem að framan er rakið leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í nefndaráliti og gerð hefur verið grein fyrir og þarfnast ekki nánari skýringa.

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Bjarni Jónsson, Eyjólfur Ármannsson, Helga Vala Helgadóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson.