Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. 800 milljónir. Já, 800 milljónir er sú upphæð sem við Íslendingar þurfum að greiða í sekt á næsta ári fyrir að hafa ekki staðið við loftslagsskuldbindingar okkar í tengslum við Kyoto-samkomulagið. 800 milljónir sem hefðu getað farið í að niðurgreiða sálfræðiþjónustu eða skera niður biðlista. En það að borga 800 millj. kr. sekt virðist ekki vera næg refsing til að íslenskir ráðamenn taki loftslagskrísuna alvarlega enda hverfur þessi upphæð bara inn í annað í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er sekt sem á einungis eftir að hækka þar sem við stöndum ekki við þau loforð sem við gáfum sem hluta af Parísarsamkomulaginu. Það að jöklarnir okkar séu að hörfa, veðurfarið að breytast, skriður falli þar sem sífreri er að bráðna — ekkert af þessu hefur nægileg áhrif til þess að ráðamenn og stjórnmálamenn almennt séu tilbúnir til þess að taka þessa vá alvarlega.

Það er talað fjálglega um orkuskipti sem töfralausn en því miður er engin almennileg aðgerðaáætlun til staðar og stundum virðist eins og stjórnmálamenn vilji nýta þessi orkuskipti til að ná algerlega óskyldum málum í gegn, málum sem jafnvel eru slæm fyrir umhverfið. Við verðum að átta okkur á því að það er þegar komið neyðarástand í loftslagsmálum og það dugar ekkert hálfkák. Við þurfum að fara í alvarlegar aðgerðir strax og ekki sitja og bíða þar til það er of seint að framkvæma. Verður það kannski fyrst þegar fiskurinn, auðlindin okkar, hættir að koma á Íslandsmið sökum hlýnunar sjávar og aukins sýrustigs að stjórnmálamenn á Íslandi átta sig á því að aðgerða er þörf?