Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.

163. mál
[17:19]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Það er mikilvægt að við hugsum út fyrir boxið, eins og það er kallað, þegar kemur að geðheilsu fólks, hvernig má bæta hana. Það er athyglisvert að sjá að breið samstaða er innan þingsins um að skoða þessi mál. Mér þykir einmitt mjög athyglisvert að sjá hve mikilvægt er að þetta sé gert í gegnum fagfólk og í gegnum heilbrigðisgeirann í stað þess að fólk sé að gera þetta á eigin vegum. Það eru fleiri lyf og fleiri náttúrlegar lausnir eins og þessi sem fólk hefur verið að prófa í lækningaskyni. Við höfum séð mörg fylki Bandaríkjanna leyfa notkun kannabis í lækningaskyni. Það eru líka til rannsóknir á því hvernig hægt er að nýta sumt sem hingað til hefur kannski verið skilgreint sem fíkniefni. Þegar þessi efni eru tekin og rannsóknir gerðar í gegnum fagfólk kemur í ljós að hægt er að nýta eiginleika þessara efna. Við erum stundum of blind fyrir því að gera slíkt vegna þess að við höfum áður skilgreint þetta sem fíkniefni.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér, ef þessar rannsóknir og prófanir ganga vel, að hann verði opinn fyrir því að skoða fleiri slík efni.