Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða.

397. mál
[18:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé einmitt málið að það er mjög flókið hvernig á að halda utan um alla þessa hluti. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt í þessari umræðu, þegar við erum að gera þetta, að við höfum umhverfissjónarmið í fyrirrúmi. Það er mjög mikilvægt að við gerum þessa hluti á þann hátt að við séum ekki líka að ganga á umhverfið.

Hv. þingmaður nefndi aðföng til ræktunar og eldis, áburð og fleira, og þá hugsaði ég strax: Er þetta ekki eitthvað sem við gætum verið að vinna hér? Til dæmis plastið sem við notum á baggana sem gera það að verkum að við getum nýtt heyið mun betur — mér hefur verið tjáð að hægt væri að endurvinna það plast sem verður afgangs hér á landi í nógu miklu magni til að allir bændur gætu fengið endurunnið plast frá Íslandi. (Forseti hringir.)

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni, hvort hann sér einhver (Forseti hringir.) hringrásar- og endurnýjunarsjónarmið sem gætu verið til staðar þegar kemur að aðföngunum.