153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:09]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda mig í núinu og vekja athygli á því hvað hæstv. ríkisstjórn skuldar örorku- og ellilífeyrisþegum núna fyrir jól. Upphaflega átti að hækka bætur almannatrygginga um 3,8% á þessu ári. Mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar í júní bætti við 3% og því hafa bætur almannatrygginga hækkað að meðaltali um 5,3% á árinu. Verðbólgan var metin sem 7,5% yfir árið. Við vitum að þetta stenst ekki lengur. Hún stefnir í 8,8% miðað við Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins tala um 8%. Þarna munar um 3% það sem af er ári. Þetta eru um 9.000 kr. á mánuði, vel yfir 100.000 kr. yfir árið fyrir skatt. Þetta er raunkostnaður vegna ófyrirsjáanlegra atburða á árinu. Hæstv. ríkisstjórn mætir með 28.000 kr. eingreiðslu til öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega fyrir hátíðirnar. Í fyrra komum við saman að frumkvæði stjórnarandstöðunnar og veittum 53.000 kr. eingreiðslu fyrir jólin. Er eitthvað því til fyrirstöðu að hæstv. fjármálaráðherra tvöfaldi þá upphæð sem nú er í fjárauka?