153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða þá stöðu að tekjur ríkissjóðs eru um 115 milljörðum yfir áætlun, afkoman 60 milljörðum betri og skuldahlutföllin miklu hagstæðari. Það eru nokkrir útgjaldaliðir. Ég verð að segja að það kemur dálítið á óvart að menn skuli þá fara með einhverjum smásmugulegum hætti ofan í einstaka útgjaldatilefni og bera þau saman. Það er einfaldlega ekki hægt að bera almannatryggingar og þær reglur sem við höfum verið að fylgja hvað þær snertir saman við stöðu bænda og þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir, allir matvælaframleiðendur í landinu, vegna stríðsátaka, hærra orkuverðs og hækkana á áburðarkostnaði. Eins og allir vita var settur af stað sérstakur hópur, svonefndur spretthópur, að frumkvæði matvælaráðherra sem komst að þessari niðurstöðu. Ekki er bara verið að horfa nákvæmlega í einhverjar vísitölubreytingar. Það er verið að skoða raunstöðuna, hvað þurfi til að matvælaframleiðsla í landinu geti haldið óröskuð áfram. Það er ekki gert með hliðsjón af því hvaða breytingar verða á bótum almannatrygginga yfir tímabilið.