153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum tekið hér upp á undanförnum árum alþjóðlega reikningsskilastaðla sem eiga að vera til þess fallnir að auka sem mest gagnsæið um stöðu opinberra fjármála. Reyndar sýnist mér í fljótu bragði að við göngum lengra en nokkur önnur þjóð í því að kalla upp á yfirborðið allar skuldbindingar og allt það sem vanfjármagnað er. Við reiknum okkur t.d. vexti af vanfjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum inn í framtíðina. Ég veit ekki hver sú tala ætti að vera á ári fyrir Þýskaland og Frakkland ef menn þyrðu bara að horfast í augu við það sem þeir hafa ekki fjármagnað. Hér er um að ræða reiknaða stærð sem eru verðbætur ofan á verðtryggðar skuldir. Við skulum hafa það í huga að það er svona mjög gróft séð kannski einn þriðji ríkisskuldanna sem er verðtryggður. Já, þetta er há tala en hún kemur ekki til útgreiðslu núna þó að hún sé gjaldfærð. Hún er gjaldfærð vegna þess að verðbótaþáttur höfuðstólsins hækkar um (Forseti hringir.) þessa fjárhæð. Ég er nú búinn með tímann, ég skal koma inn á Íslandsbanka hér á eftir.