153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[13:30]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þessi fjáraukalög snúast, að því er mér sýnist, aðallega um fimm atriði. Það eru verðlagsuppfærslur, það eru Covid-áhrif, það eru breytingar á Stjórnarráði, fullt af millifærslum þar, það eru einhver ný verkefni og svo er það stríðið í Úkraínu, sem hefur líka áhrif á verðlag. Hinn 25. mars 2022 var öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum vegna heimsfaraldurs Covid-19 aflétt jafnt innan lands sem á landamærum. Vissulega kom ákveðin bylgja í kjölfarið sem hafði mikil áhrif á heilbrigðiskerfið og það sést á þessum tölum hérna varðandi sjúkrahúsþjónustuna, tæpir 10 milljarðar sem fara þar vegna Covid.

Það er atriði sem við höfum oft talað um varðandi lög um opinber fjármál og segir í þeim um frumvarp til fjáraukalaga, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Þarna mætti nefna millifærslu fjárveitinga, heimild um flutning fjárheimilda milli ára, eftirlit með fjárlögum innan fjárlagaárs og svo er ákveðin upplýsingaskylda og tilfærsla á lánum líka o.s.frv. Það eru þó nokkur svona úrræði sem ráðherra hefur til að fylgja þeim ramma, innan hvers málefnasviðs í rauninni, sem er settur í fjárlögum. Það er alveg skiljanlegt. Þegar kemur t.d. stríð sem hefur svona víðtæk áhrif er eðlilegt að uppfært sé miðað við það, verðlagsuppfærslur eru eðlilegar þegar það er atvinnuleysi, að þær tölur séu einfaldlega leiðréttar og þess háttar. En það eru, eins og ég sagði áðan, tvímælalaust einhver ný verkefni hérna. Það er einnig ósamræmi á milli þess hvað er uppfært og hvað ekki, sem mér finnst dálítið áhugavert, eins og kom fram áðan í andsvörum mínum við ráðherra.

Ef við rennum stuttlega yfir það sem er að gerast þá er fyrsta atriðið samstarf um öryggis og varnarmál, 650 milljónir aukalega, af 3,6 milljörðum sem eru í fjárlagafrumvarpi fyrir 2023. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að bregðast við þessu innan fjárlaga, t.d. með því að fjárlagaliðurinn fari í mínus. Hann verður það um áramótin og svo er hann bara byggður upp aftur, af því að þetta er tímabundið. Ég spyr hvort það eru réttar fjárheimildir eða ekki. Það kemur bara í ljós eftir því sem á líður. Það er mikilvægt að átta sig á því að lög um opinber fjármál hafa þetta öðruvísi en áður var í lögum um fjárreiður ríkisins þar sem alltaf þurfti að gera upp allt um áramótin en núna flæða fjárheimildir meira á milli ára. Það þarf að rökstyðja ef það þarf að færa fjárheimildir á milli ára. Það getur verið vegna málefnalegrar ástæðu en það þarf líka að útskýra af hverju það er hallarekstur. Það geta líka verið málefnalegar ástæður fyrir því. En við erum enn þá einhvern veginn í gamla fyrirkomulaginu, að gera upp málefnasviðin við áramót þannig að þau standi í núlli. Það gerir fjárlaganefnd pínulítið erfitt fyrir að fylgjast með framkvæmd fjárlaga og sjá í rauninni hvernig þróunin er, hvort ákveðinn málaflokkur sé undirfjármagnaður eða jafnvel offjármagnaður. Ef það er alltaf verið að stilla til fram og til baka þá er ekki hægt að skoða söguna um hver áramót til að sjá hvernig staðan var, það þarf að fara að skoða hvað var lagfært líka og það eykur bara flækjustigið við eftirlitið, sem er ekki lítið. Utanumhaldið margfaldast í rauninni og það sem þarf að vesenast í, sérstaklega þegar það eru fleiri en einn fjárauki á árinu eins og hefur gerst hérna nokkrum sinnum að undanförnu út af Covid.

Hér er t.d. millifært í skatta-, eigna- og fjármálaumsýslu. Ég veit ekki af hverju allar þessar millifærslur eru í fjárauka. Þó að það hafi verið gerðar breytingar á Stjórnarráðinu þá átta ég mig ekki á þessu. Kannski er það að einhverju leyti ófyrirsjáanlegt, en nei, það á ekki að vera það, það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að breyta Stjórnarráðinu. Það var gert snemma árs og mér finnst það ekki vera rosalega ófyrirséð. Það var kannski bara dálítill trassaskapur. Mér finnst allar þessar millifærslur óþarfar, óþarfa bix á fjárheimildum á milli ráðherra. Kemur okkur eiginlega ekkert rosalega mikið við þegar allt kemur til alls. Verkefnin sem slík eru unnin óháð því nákvæmlega hvaða ráðherra eða ráðuneyti er ábyrgt fyrir þeim. Mér finnst þetta voðalega óþægilegt fyrirkomulag.

Önnur tilfærsla hér undir hagskýrslugerð og grunnskrár og svo varðandi liðinn nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, þar eru 1,7 milljarðar eða svo vegna endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Það er ekki ófyrirséð. Það var alveg vitað þegar var verið að afgreiða fjárlögin síðast að það væri ekki nægilegt fjármagn þarna. Það sama með frumvarp til fjárlaga 2023, það er líklega vanfjármögnun þar. Hvað þá með lyfin, ég fer aðeins yfir það á eftir. Þetta er eitt af þeim dæmum, finnst mér, sem er kannski bara viljandi vanfjármagnað í fjárlögum. Það þarf hvort eð er að greiða þetta seinna og þá er það gert með ákvörðun eða ekki, eftir því hvernig fjárheimildir eða hagvöxturinn þróast, annars er hægt að fresta þessu eins og hefur verið gert líka. Þetta er tilfallandi af því að það gengur betur en búist var við og þá er hægt að gera þetta upp núna. Það kemur ekki of illa niður á afkomunni.

Hérna eru framlög til sveitarfélaga, 2,2 milljarðar, endurskoðuð áætlun vegna leiðréttingar fyrir árið 2021, það er áhugavert. Þetta er eitt af tveimur atriðum hérna sem eru vegna leiðréttingar fyrir árið 2021 en ekki 2022, allt í lagi svo sem. Það er fjáraukalagafrumvarp fyrir 2021 en við erum samt að afgreiða ríkisreikning fyrir árið 2021 núna í fjárlaganefnd, þannig að það verða einhverjar breytingar á því. Ég veit ekki hvort það er óheppilegt eða óþarft að taka þetta inn í fjáraukalög. Þetta ætti í rauninni bara að fara inn í fjárlög sem leiðrétting á ákveðinni vanfjármögnun í þessum málaflokki þar sem hver málaflokkur má alveg fara í mínus.

Hér er löggæsla vegna faraldurs, en mig langaði að fara aðeins yfir í samgöngurnar. Það er áhugavert misræmi þar. Þar eru 350 milljónir og 300 milljónir eru sagðar vera vegna verðlagsþróunar almenningssamgangna eða, með leyfi forseta:

„Tillagan samanstendur af auknum fjárveitingum til samningsbundinna ríkisstyrktra flugleiða, til Loftbrúar, til áætlunaraksturs á landsbyggðinni og ferjureksturs.“

Þetta er ekki vegna verðlagsþróunar hjá Strætó, þar gildir líka samningur, samningur um framlög til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þar er sérstaklega tilgreint að sá samningur á að vera verðlagsbættur að gefnum fyrirvara um afgreiðslu þingsins, sem er tiltölulega eðlilegt í svona samningum. En hérna er ekki verið að leggja til verðlagsbætingu á nákvæmlega þeim heldur bara leggja til verðlagsbætingu á Loftbrúnni, áætlunarakstri á landsbyggðinni og ferjurekstri. Ekki á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju ekki? Af hverju í ósköpunum ekki? Þetta er eitthvað sem fjárlaganefnd þarf að skoða.

Hér er leiðrétting vegna alþjónustu í pósti, það er allt í lagi. Það er uppreikningur. Ég fór áðan í andsvörum yfir stjórn landbúnaðarmála. Miðað við þessar tölur þá eru 18,5 milljarðar í fjárlögum 2022, held ég að sé, en eins og hér er sagt eru kostnaðarhækkanir búgreina áætlaðar 4,6 milljarðar á árinu 2022, sem er um 20% hækkun. Það er svolítið mikið. Ríkið ætlar að dekka 2,2 milljarða tæpa á árinu 2022, rúmlega 10%, rúmlega helminginn af þessari 20% hækkun. Þetta er mun meiri hækkun en gengur og gerist, en það er gert ráð fyrir 8,8% almennri vísitöluhækkun neysluverðs, almennri verðbólgu. Hún er svo sem mismunandi, hún leggst misþungt á ólíka undirþætti vísitölu og það getur vel verið að búgreinarnar séu að verða fyrir enn þá meiri hækkunum en meðaltalið gerir ráð fyrir. Þetta er eitthvað sem ég hef oft bent á, maður verður stundum að horfa á dreifinguna frá meðaltalinu. Þeir sem verða fyrir áhrifunum, hvar eru þeir í dreifingunni? Dreifast þeir líka í kringum meðaltalið eða eru þeir útlagar á einhvern hátt? Það getur vel verið að í þessu tilfelli séu búgreinar í rauninni útlagar og eru með kostnaðarþætti sem eru í hærri kanti undirvísitölu verðbólgunnar. Það er bara gott og blessað, eitthvað sem við verðum að skoða.

Annað sem mig langar til að fjalla um eru lyfin. Þar eru 2,6 milljarðar rúmlega vegna endurmats á útgjöldum ársins. Við erum að fá fregnir núna frá heilbrigðisyfirvöldum um að það sé vanmat í frumvarpi til fjárlaga 2023 vegna lyfja. Þetta þarf þá væntanlega að bætast ofan á það líka í fjárlögum fyrir 2023. En þetta er einn af þeim kostnaðarliðum sem hefur verið vanmetinn oft á undanförnum árum. Það var gert ákveðið átak fyrir nokkrum árum síðan þannig að matið hélst nokkurn veginn rétt en við erum að detta undir það aftur, vegna annarra ástæðna líka heldur en voru þá. Vanmatið er til staðar.

Ferlið sem við förum í gegnum til að reyna að komast að því hvernig þetta virkar allt, hvernig þessi rammafjárhagsgerð virkar er svona: Við fáum skilaboð í fjárlaganefnd þegar fagráðuneytin koma og segja: Við leggjum til X-mikið í verkefnin okkar. En fjármálaráðuneytið segir nei. Við spyrjum fjármálaráðuneytið og þeir segja: Nei, við gerum ekkert svoleiðis. Það er ráðherranefnd um efnahagsmál og ríkisstjórnin sem ákveður þetta. Það hefur líka verið bent aftur á fagráðuneytin, þau verði bara að skila sínum áætlunum. Sem þau síðan gera og við lendum í einhvers konar hring þar sem allir benda á alla. Niðurstaðan í þessu akkúrat núna er að það er ráðherranefnd um efnahagsmál og ríkisstjórnin sem tekur ákvörðun um það hver ramminn er, t.d. í heilbrigðismálum. Ef ráðuneyti heilbrigðismála, öll saman í rauninni, leggja til ákveðna upphæð sem þau telja að sé kostnaðurinn við það að reka heilbrigðiskerfið, hann sé þetta mikill, en ríkisstjórnin segir: Nei, við ætlum að úthluta minna til rammans um þessi heilbrigðismál, þá þurfum við að vita hérna á þingi og fólkið hérna úti hver munurinn er og af hverju hann er. Hvaða þjónustu er verið að skerða? Það sem virðist iðulega gerast er að þá eru liðir eins og lyf einfaldlega vanfjármagnaðir Menn vita að þegar kemur síðan að skuldadögum er borgað fyrir öll lyfin hvort eð er. Þannig að ákvörðunin um að veita minna fjármagn er í rauninni gagnslaus. Hún er blekking. Það sem er verið að segja okkur um afkomu ríkissjóðs er þá líka blekking af því að það eiga eftir að koma meiri gjöld og alla jafna er ríkisfjárlagagerðin gerð út frá varfærnisjónarmiðum þannig að bæði tekjur og gjöld eru metin af ákveðinni varfærni, sérstaklega tekjurnar. Það hefur áhrif á það hvað er hægt að taka ákvörðun um sem gjöld. Ef tekjurnar eru 1.000 milljarðar í alvörunni en það er bara gert ráð fyrir 900 milljónum í tekjur af því að það er varfærin áætlun, þá er ekki hægt að miða við neitt annað en 900 milljarða í útgjöld líka. Svo raungerist það að það eru 1.000 milljarðar í tekjur, 100 milljarðar þarna á milli sem er hægt að nota í eitthvað annað, t.d. að fara eftir réttri áætlanagerð í heilbrigðismálum. Þetta er fyrirkomulag sem ég er ekkert rosalega hrifinn af. Ég vil fá kostnaðarmatið eins og það liggur fyrir og einfaldlega að fjármagna það. Það væri heiðarleg framsetning að mínu mati. Svo raungerast réttar tekjur í kjölfarið, óháð því hvernig annað gerist eða að ríkisstjórnin þarf að huga að betra tekjumódeli. (Forseti hringir.) En eins og er erum við sífellt að elta einhverjar áætlanir sem standast ekki. Þær standast ekki af því að þær eru ekki heiðarlega settar fram.