153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[14:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og góðum félaga í fjárlaganefnd kærlega fyrir ræðuna. Mig langaði í samhengi við þau sjónarmið sem þingmaðurinn nefnir, leggur áherslu á og hefur verið öflugur í að standa vörð um, sem er hagur og staða öryrkja á Íslandi, að rifja þetta aðeins upp. Nýfallinn dómur Hæstaréttar Íslands um sérstaka framfærsluuppbót er umfjöllunarefni í fjáraukalögum. Það stakk okkur svo á sínum tíma, eftir að dómur í héraði lá fyrir og síðan mjög vel rökstuddur og greinargóður dómur í Landsrétti, að ríkisstjórnin skyldi leggja það á sig að sækja um áfrýjunarleyfi til að fara með þetta mál alla leið upp í Hæstarétt Íslands. Það finnst mér lýsa mjög sterkri pólitískri afstöðu til þessa hóps. Ég lagði fram skriflega fyrirspurn á sínum tíma til hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, um lagalegar en ekki síst pólitískar forsendur þess að fara með þetta mál til Hæstaréttar í ljósi þess að mér fannst dómurinn vera þannig að það væri algjörlega borðleggjandi hvernig þetta myndi fara.

Hvað varðar pólitísku sjónarmiðin sem þetta lýsti þá kom fram og kom mér á óvart að það hefði verið þáverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, sem kynnti þá ákvörðun fyrir ríkisstjórn að fara með málið til Hæstaréttar, en núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem tók við embættinu, gerði engar athugasemdir við það. Af því mátti heyra og skilja að í ríkisstjórninni og hjá félagshyggjuflokkunum þar, bæði Framsókn og Vinstri grænum, væri einhugur um að berjast allt upp í Hæstarétt fyrir því að fólk skyldi ekki njóta þessara réttinda.