153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

+0fjáraukalög 2022.

409. mál
[14:34]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta sem hv. þingmaður var að lýsa er klassískt viðhorf þessarar ríkisstjórnar til öryrkja og aldraðra og málefna þeirra. Ég get ekki séð neinn mun á stjórnarflokkunum hvað það varðar, skiptir engu hvort það er Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir eða Framsóknarflokkurinn, afstaðan er sú sama. Út á við og í fjölmiðlum virðast Vinstri grænir þó vera að reyna að leika einhverja aðra rullu en þeir gera innan ríkisstjórnarinnar. Þetta snýst um það. Barátta öryrkja og aldraðra fyrir réttindum sínum er mjög erfið barátta, bæði fyrir dómstólum, í samfélaginu og gagnvart stjórnvöldum. Við sjáum það gagnvart 69. gr. laga um almannatryggingar að búið er að brjóta það ákvæði árum saman með aukinni kjaragliðnun hvert einasta ár. Ég, ásamt félögum mínum í Flokki fólksins, lagði fram þingsályktunartillögu um að samtök öryrkja og samtök aldraðra kæmu að kjarasamningsviðræðum um leið og ríkisstjórnin kæmi þar að, sem verður væntanlega undir lok þeirrar samningalotu, í svokölluðum þríhliða viðræðum. Það er mjög mikilvægt að þau fái sæti við borðið þegar efnahagsstefna ríkisstjórnar verður loksins mótuð vegna þess að hún er ekki komin fram. Hún kom ekki fram í fjárlagastefnunni, ekki í fjármálaáætluninni og það er erfitt að lesa einhverja stefnu úr þessum fjárlögum, hvorki þessu frumvarpi sem hér er til umræðu og fer til nefndar og núverandi fjárlagafrumvarpi. Hún verður mótuð í þríhliða viðræðum ríkis og aðila vinnumarkaðarins.

Varðandi þennan dóm og framfærsluuppbótina þá hef ég ekki kynnt mér það sérstaklega. En það er algerlega fráleitt ef öryrkjar hafa náð fram réttindum sínum fyrir Landsrétti að Hæstiréttur fari með það lengra innan dómskerfisins þegar hann þarf þess ekki. Það vitum við bæði og það vita allir. Þau eiga að sætta sig við dóminn og láta staðar numið en ekki standa í deilum fyrir framan dómstóla landsins alveg til hæsta dómstigs. Það sýnir viðhorf ríkisstjórnarinnar í heild til öryrkja.