153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[14:38]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt. Niðurstaðan var skýr og byggð á sterkum forsendum í Landsrétti varðandi réttindi öryrkja en samt ákveður ríkisstjórnin að fara með málið upp í Hæstarétt. Það sýnir bara viðhorfið. Ef niðurstaða Landsréttar byggir á skýrum og sterkum rökum og hún fer með málið til Hæstaréttar þá þýðir það að hún fellst ekki á forsendur dómsins. Hún er ósátt við eitthvað. Það sýnir bara málflutning þeirra að þau vilja bæði éta kökuna, halda henni og baka hana. Afstaða þessarar ríkisstjórnar, sama hvað félagshyggjuflokkarnir í ríkisstjórninni vilja meina og róttæku, sósíalísku og femínísku Vinstri grænir, er að hún er í baráttu við öryrkja í landinu. Það er bara svoleiðis. Sama er með Framsóknarflokkinn. Þau geta leikið einhverja rullu í fjölmiðlum en staðreyndirnar tala sínu máli — kjaragliðnunin, niðurstaða Landsréttar og endalaust stríð við hópa eins og öryrkja sýnir bara hvers konar viðhorf þetta er. Það er ekki af neinu sem flokkurinn minn, Flokkur fólksins, fékk tæp 9% í síðustu kosningum. Það er ástæða fyrir því og það er mikilvægt að við fáum að halda okkar rödd, að við getum haldið þessari rödd áfram og þessari baráttu — flokkur sem formaður flokksins stofnaði árið 2016, fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er flokkur sem er 100 árum yngri en Framsóknarflokkurinn og á mun bjartari framtíð fyrir sér en hann.