153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[14:40]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Við erum hér með til umræðu fjáraukalög. Þar hefur hæstv. fjármálaráðherra eðlilega og réttilega dregið fram þær breytingar sem hafa orðið frá því að við hófum umræðu um frumvarp hans til fjárlaga og það er alveg rétt að það eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Þar er rakið að frumjöfnuður ríkissjóðs batni vegna efnahagsbata og ástæður þess eru mikil fjölgun ferðamanna og vöxtur í einkaneyslu. Báðar þessar breytur eru umfram forsendur í fjárlagafrumvarpi. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að þessi bati nemi um 94 milljörðum kr. Þetta er jákvætt og þetta er þýðingarmikið og yfir þessu eigum við að gleðjast.

Ég vil hins vegar leyfa mér að nefna að í samhengi við fjölgun ferðamanna þá hef ég miklar áhyggjur af stöðunni eins og hún er á alþjóðavettvangi og þeim blikum sem þar eru á lofti því að hagrannsóknir sýna okkur það að þegar að kreppir þá sker fólk fyrst niður í ferðalögum, menningu og upplifun. Þarna komum við kannski aftur að þeirri stöðu sem gerði okkur veikari fyrir á tímum heimsfaraldurs, hversu háð við erum ferðaþjónustunni. Við verðum þess vegna að vera mjög vakandi fyrir því sem er að gerast í þeim ríkjum sem ferðamennirnir okkar koma frá og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þar þurfi ekki mikið að breytast til að áhrifin verði umtalsverð hjá okkur.

Það eru líka miklar breytingar á vaxtagjöldum. Verðbólga hefur aukist langt umfram það sem búist var við og vaxtagjöldin eru að hækka um 37 milljarða frá fyrri forsendum sem má fyrst og fremst rekja til verðbólgunnar. Þetta eru mjög stórar tölur og þarna þarf að halda því til haga að áður en þessi mynd teiknaðist upp þá vorum við engu að síður í þeirri stöðu að vaxtakostnaðurinn var fjórði stærsti útgjaldaliður frumvarpsins þannig að kostnaður okkar af vaxtagjöldum er óheyrilegur. Þetta er auðvitað mikið og stórt áhyggjuefni. Þó að heildarafkoman sé að batna þá er það auðvitað gríðarlega mikið áhyggjuefni hversu há vaxtagjöld ríkissjóðs eru orðin og verða á næstu árum. Þetta er langstærsta breytingin þegar við erum að skoða núna hvað er að breytast í útgjöldunum. Við getum séð það í samhengi við hversu mikið verðbætur hafa hækkað frá 2019, þær hafa farið úr 10 milljörðum upp í tæpa 50. Í þessu samhengi myndi ég vilja vísa í, benda á og halda til haga því sem fram hefur komið í umsögnum frá Samtökum atvinnulífsins, frá Viðskiptaráði og öðrum aðilum sem eru að benda á þá alvarlegu stöðu og þá sérstöðu um það hve há vaxtagjöld eru hér í samanburði. Vaxtakostnaðurinn er t.d. mun hærri hér en víða erlendis og er á ársgrundvelli hærri en framlög til Vegagerðarinnar og Háskóla Íslands til samans. Auðvitað væri betra og ákjósanlegt að geta varið fjármunum á annan hátt en þennan til að geta eflt grunnþjónustu og innviði eins og sannarlega er þörf á. Þannig að það verður alltaf að setja þennan kostnað í samhengi við það hverjar afleiðingarnar eru af því að hafa þennan lið og þennan póst jafn stóran og raun ber vitni. Heimilin í landinu þekkja það ágætlega að það er dýrt að skulda. Þetta er líka veruleiki ríkissjóðs sjálfs.

Þetta kemur inn á það hversu ofboðslega þýðingarmikið það er að ríkisfjármálin séu í takt við peningamálastjórnina og þetta hefur Seðlabankinn verið að benda okkur á ítrekað og ekki síst núna allt þetta ár. Ég upplifi það þannig eftir að hafa setið í fjárlaganefndinni núna í haust að Seðlabankinn hafi því miður verið skilinn einn eftir af ríkisstjórninni með það verkefni að glíma við verðbólguna. Þegar aðhaldið minnkar verður afleiðingin þessi. Þannig að batnandi afkomu virðist mætt með því að draga úr aðgerðum sem þarf til að koma efnahagslífinu og ríkissjóði í jafnvægi.

Ég held að forsendur ríkisfjármálanna séu hæpnar. Skuldir næstu ára munu bera með sér háa vexti og þetta er staða sem er alltaf að teiknast upp sem verri og verri. En til að einfalda myndina er kannski kjarninn í þessu öllu saman sá að tekjur standa ekki undir gjöldum og það er í sjálfu sér ekki ný saga. Þetta er það sem við í Viðreisn höfum verið að benda á um langan tíma. Afsökunin, fjarvistarsönnunin, er ekki heimsfaraldurinn eða afleiðingar heimsfaraldurs því þetta var staðan fyrir tilkomu hans. Vissulega drógust tekjurnar saman í heimsfaraldri og kölluðu á aukin útgjöld en þegar maður tekur þann kafla og það tímabil út fyrir sviga þá sjáum við að þessi mynd hafði teiknast upp löngu fyrir heimsfaraldur, að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla vegna ákveðins freistnivanda stjórnvalda. Þetta kom fram í áliti fjármálaráðs við síðustu fjármálaáætlun.

Þetta meirihlutasamstarf krefst málamiðlana, eðlilega. Svo er alltaf. En það breytir því ekki að þó að þrír flokkar starfi saman og þurfi að gera málamiðlanir eru þeir samt ekki lausir undan þeirri ábyrgð að geta tekið stöku ákvörðun. Það virðist einhvern veginn vera þannig í þessu samstarfi að pólarnir tveir draga fram það versta hvor í öðrum, að það vantar upp á aðhald og ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Það virðist vera afleiðing af því að vera í sambúð með Vinstri grænum, og Sjálfstæðisflokki og Framsókn tekst ekki að halda aftur af útgjaldagleði hins armsins. Það eru engar skýrar ákvarðanir sem við erum að sjá, engar lausnir um það hvort eigi að brúa bilið með aukinni tekjuöflun eða gjaldalækkunum og ég velti því fyrir mér hvort það verði þannig áframhald á því á þessu kjörtímabili að við séum í biðflokki með allar þýðingarmiklar ákvarðanir. Niðurstaðan er að ríkissjóður er ósjálfbær, lífskjörin eru tekin að láni og reikningurinn sendur næstu kynslóð.

Ég er að leggja svona mikla áherslu á þessa stóru mynd um fjármálin. Flestir aðrir hér hafa verið að tala um einstaka útgjaldaliði; um sjúkrahúsþjónustuna, um velferðarkerfið, um heilbrigðismálin í heild sinni, en auðvitað er það þannig að þessi stjórn fjármála hjá ríkisstjórninni núna, um árabil, hefur þau áhrif að við stöndum veikari að vígi um að verja innviðina, að styrkja heilbrigðiskerfið, að standa með Landspítalanum, sem meiri hluti þjóðarinnar er mjög á því að eigi að gera. Þessi slælega stjórn ríkisfjármálanna hefur þau áhrif að staðan er ekki sterkari en raun ber vitni í heilbrigðis- og velferðarmálunum. Það er ekki hægt að slíta þetta tvennt í sundur. Þess vegna verða líka þeir sem vilja tala máli sterkara velferðarkerfis, sterkara heilbrigðiskerfis, að standa með okkur í því að halda ríkisstjórninni við efnið um það að vera ábyrg í fjármálunum, að fjármunirnir fái að leita þangað sem þeirra er þörf en ekki sé verið að stofna til skulda utan um einhver gæluverkefni, fjölgun ráðuneyta og annað í þeim dúr. Þetta helst allt saman í hendur.