153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[14:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Velferðarþjóðfélag byggir á félagslegum réttindum. Það byggir ekki á sporslum og tilviljanakenndum bónusum, eingreiðslum. Þess vegna er það óþolandi staða að þurfa að standa hérna í þingsal annað árið í röð og kallað eftir eingreiðslu, sómasamlegri eingreiðslu fyrir öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega. Ástæðan fyrir því að þessi krafa er sett fram, ástæðan fyrir því að hún var sett fram í fyrra og sett aftur fram núna, er sú að almannatryggingakerfið okkar virkar ekki eins og það á að virka. Það virkar ekki eins og við viljum að það virki. Það stendur ekki undir því hlutverki að verja lífsafkomu þeirra tekjulægstu. Öryrkjar eru fastir í skerðingafrumskógi og kjör þeirra hafa dregist aftur úr kjörum á almennum vinnumarkaði, þvert á það sem mælt er fyrir um í 69. gr. almannatryggingalaga.

Hvernig getum við hér í þessum sal réttlætt það fyrir sjálfum okkur og öðrum að óskertur lífeyrir hjá manneskju sem fær örorkumat 40 ára er bara rétt rúmlega 300.000 kr. á mánuði, 300.000 kr. fyrir skatt, langt undir lágmarkslaunum á vinnumarkaði? Þetta er hátt í fimm sinnum lægri fjárhæð en við erum með í mánaðarlaun hér í þessum sal. Hvernig getum við réttlætt þessa stöðu? Við getum það ekki. Þetta er óverjandi. Og einmitt þess vegna gerðist það t.d. hérna fyrir ári, eftir margra vikna stapp og þrýsting frá stjórnarandstöðuflokkum, að Alþingi sameinaðist um að veita öryrkjum og endurhæfingarlífeyrisþegum 53.000 kr. eingreiðslu í desember svo að fólk gæti kannski haft það bærilegt yfir hátíðirnar.

Nú er efnahagsárferðið allt annað á Íslandi, 9% verðbólga og vextir hafa hækkað mjög skarpt þannig að bæði er kaupmáttur að rýrna og greiðslubyrði vegna húsnæðis að rjúka upp. Í október leituðu 80 manns til umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda. Þetta voru mikið til öryrkjar og samkvæmt gögnum frá umboðsmanni skuldara er meðalgreiðslugeta þeirra minni en enginn, 3.500 kr. í mínus. Þannig er staðan þegar greitt hefur verið fyrir allar nauðsynjar. Það er mikilvægt að halda þessu til haga hér í þessum sal. Og hvað gerir ríkisstjórnin við þessar kringumstæður? Jú, þá á að skera niður þessa eingreiðslu sem við vorum að tala um, skera hana niður um u.þ.b. helming, þessa desembereingreiðslu, og það er réttlætt með vísan til hækkunar greiðslna almannatrygginga síðasta sumar, hækkunar sem nú þegar hefur brunnið upp á verðbólgubálinu. Höldum því til haga.

Í byrjun ársins voru greiðslur almannatrygginga hækkaðar um 3,8%. Mótvægisaðgerðin í júní bætti við 3%, svo að alls hafa greiðslurnar hækkað um rúmlega 5%, einhvers staðar á bilinu 5–6. Ríkisstjórnin kvittaði undir að verðbólgan þetta árið yrði 7,5%. Þannig var það í haust en sú spá er orðin úrelt. Núna væntir Seðlabankinn 8,8% verðbólgu að meðaltali og Samtök atvinnulífsins vænta a.m.k. 8% verðbólgu. Á mannamáli þýðir þetta að öryrkjar og endurhæfingarlífeyrisþegar taka á sig 3% verðlagshækkun á árinu, hátt í 10.000 kr. á mánuði, óbætta. Þetta væri kannski þolanlegt, þetta væri kannski eitthvað sem væri bara hægt að láta nægja að leiðrétta um næstu áramót ef kjör öryrkja hefðu raunverulega fylgt almennri launaþróun á undanförnum árum og ef fólk hefði það þokkalegt, fólk sem er í þeirri stöðu að geta ekki unnið. En staðan er bara sú að óskertur örorkulífeyrir hefur ekki fylgt almennri launaþróun. Hann er tugþúsundum lægri en lágmarkslaun í landinu og nær helmingur öryrkja hefur lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Þetta er óverjandi staða og við hljótum að geta verið sammála um það.

Ráðherrar og stjórnarþingmenn bera alltaf blak af þessu ástandi með vísan til þess að það sé einhver svona heildarendurskoðun í gangi. En það borðar enginn heildarendurskoðun og fólkið sem rétt skrimtir, það hefur ekkert efni á því að bíða bara eftir þessari heildarendurskoðun. Þess vegna hljótum við að gera skýlausa kröfu um það núna aftur að þessi desembereingreiðsla verði sambærileg og í fyrra. Þetta er krafan. Þá gildir auðvitað hið sama og síðast, að með þessari eingreiðslu erum við hér á Alþingi að viðurkenna vafningalaust að okkur hefur ekki tekist að búa til nógu gott kerfi fyrir fólk sem getur ekki unnið, fyrir fólk með skerta starfsgetu. Þá erum við að viðurkenna það. Ef fólk með fötlun og ef fólk með skerta starfsgetu hefði það nógu gott þá værum við ekkert að takast hérna á um einhverja eingreiðslu árlega.

Þetta er staðan. Virðulegi forseti. Stóra verkefnið, eins og ég sagði hér í byrjun ræðunnar, er hins vegar auðvitað það að skapa hérna gott almannatryggingakerfi sem við getum verið stolt af.