153. löggjafarþing — 29. fundur,  10. nóv. 2022.

sjúkratryggingar.

132. mál
[15:47]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og ég skal vera með styttri spurningu í seinni helmingnum þannig að hv. þingmaður geti komið með framhaldssvar við fyrri spurningunni. Nú nefndi hv. þingmaður þetta með tvöfalda heilbrigðiskerfið. Eitt af því sem við höfum lengi talað um hér á landi er hvort það eigi að vera einkarekið heilbrigðiskerfi og það sé þá eitthvað sem verði opið þeim, eins og hv. þingmaður benti á, sem hafa efni á því að borga fyrir það sjálf. Það er náttúrlega af hinu slæma að fólk geti keypt sér forgang inn í kerfið.

Ef ég skil frumvarpið rétt þá verður þetta þannig: Ef ég vel að fara í liðskiptaaðgerð til aðila í einkarekstri hér á landi — segjum að aðgerðin hefði kostað 500.000 kr. ef hún hefði verið framkvæmd á ríkisstofnun — og hún kostar 700.000 kr. fengi ég einunigs 500.000 kr. endurgreiddar. Ég fengi bara 500.000 kr. endurgreiddar af því að talað er um að einunigs verði greidd sú upphæð sem samsvarar verði á þjónustunni innan lands. Erum við ekki enn með smáójöfnuð? Hann hefur minnkað af því að sjúklingurinn er bara að greiða mismuninn. Samt sem áður hefði ég í þessu dæmi, sem er gripið úr lausu lofti, efni á því að borga þessar auka 200.000 kr. Hvernig getum við tryggt jöfnuð á milli fólks?