153. löggjafarþing — 30. fundur,  14. nóv. 2022.

aðgerðir í þágu kolefnishlutleysis.

[15:35]
Horfa

Högni Elfar Gylfason (M):

Herra forseti. Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur. Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var í Skotlandi í fyrra lagði Ísland fram áætlun um kolefnishlutleysi landsins. Áætlunin kemur fyrir sjónir sem eins konar útópía þeirra sem að henni standa. Í henni kom ýmislegt merkilegt fram sem ekki hefur farið hátt í umræðu manna á milli, markmið sem þarfnast nánari skoðunar og e.t.v. þýðingar yfir á íslensku svo að almenningur geti kynnt sér innihaldið. Mér er í því sambandi nauðugur sá kostur að spyrja hæstv. forsætisráðherra tveggja spurninga. Í fyrsta lagi: Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að draga úr framleiðslu kjöts á Íslandi? Og í öðru lagi: Er það stefna þessarar ríkisstjórnar að draga úr stuðningi við innlenda kjöt- og mjólkurframleiðslu?