153. löggjafarþing — 30. fundur,  14. nóv. 2022.

aðgerðir í þágu kolefnishlutleysis.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Af því að hv. þingmaður lagði hér út af markmiðinu sem við höfum lögfest um kolefnishlutleysi ekki síðar en 2040, þá vil ég minna á það að þó að Ísland sé eitt af fáum ríkjum sem hefur lögfest það markmið þá var það nú eigi að síður hluti af því sem skrifað var undir í Parísarsamkomulaginu 2015. Þar var sérstaklega kveðið á um kolefnishlutleysi sem hluta af því samkomulagi. Það má segja að sú ríkisstjórn sem þá sat hafi kannski markað leiðina þegar Ísland varð aðili að því samkomulagi og síðan höfum við að sjálfsögðu unnið samkvæmt þeim yfirmarkmiðum. Hv. þingmaður spyr hins vegar sérstaklega um kjötframleiðslu og opinberan stuðning við kjöt- og mjólkurframleiðslu. Í sjálfu sér vil ég segja það bara mjög skýrt að það hafa engar slíkar ákvarðanir verið teknar. Hins vegar liggur fyrir að við þurfum að leita leiða til að draga úr losun frá landbúnaði eins og öðrum geirum samfélagsins. Þar eru ýmsar leiðir færar, tel ég vera, og ég tel líka að það sem við gerum til að ná árangri í loftslagsmálum verði að fara saman við aðrar áherslur sem við höfum, til að mynda að tryggja fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi. Hluti af því er auðvitað að við séum í auknum mæli sjálfum okkur nóg þegar kemur að neyslu og framleiðslu matvæla. Þannig að engar slíkar ákvarðanir hafa verið teknar en markmiðið er jú að draga úr losun og gangi það ekki eftir, þá að binda meira kolefni til að jafna út þá losun sem alltaf verður í einstökum geirum samfélagsins. Ég vil segja það bara að ég held að bændur hafi haft mjög mikið frumkvæði í þessari umræðu. Sauðfjárbændur voru meðal þeirra fyrstu sem stigu fram og sögðust vilja finna leiðir til þess að stefna að kolefnishlutleysi fyrir sína grein.