153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[14:13]
Horfa

Högni Elfar Gylfason (M):

Hæstv. þingforseti. Við lifum á þversagnarkenndum tímum þar sem eitt er sagt en annað gert. Talað er fyrir bættum hag öryrkja og aldraðra en efndir skortir. Rætt er um orkuskipti en komið er í veg fyrir virkjanir. Haft er á orði að minnka báknið en það blæs út sem aldrei fyrr. Fögur fyrirheit um styrkingu iðnnáms koðna niður vegna fjársveltis. Rætt er um uppbyggingu vegakerfisins en lagt er til að láta íbúa greiða sérstaklega fyrir að komast leiðar sinnar. Orð falla um stuðning við innlenda matvælaframleiðslu en fremur er hlúð að innflutningi matvæla og aukinni skattheimtu af bændum. Heilbrigðiskerfinu er hampað sem því besta í heimi en biðlistar lengjast sem aldrei fyrr og aðstoð sjálfstætt starfandi lækna er afþökkuð. Fólk er lokkað til landsins í þúsundavís með gylliboðum um betra líf en annars staðar býðst þrátt fyrir að innviðir ráði ekki við ástandið og fjármuni skorti til að halda uppi öllu þessu ógæfusama fólki og þeim hælisleitendaiðnaði sem byggst hefur upp í kringum það. Talað er fyrir eflingu löggæslu en fjárveitingar skortir. Því ríða atvinnuglæpahópar um héruð án mikils aðhalds. En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Í því ljósi hvet ég hv. þingheim til dáða með rökræður og skynsemi að vopni fyrir Ísland allt.