Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 31. fundur,  15. nóv. 2022.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

[22:35]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar ég stíg í þennan ræðustól hins háa Alþingis þá finn ég ekki til minni ábyrgðar en við málflutning fyrir dómi. Sem málflytjandi hef ég skuldbindingu gagnvart sannleikanum og gagnvart staðreyndum og málflutningur þarf að vera markviss, málefnalegur og beinast að staðreyndum. Ef reynt er að höfða til tilfinninga eða vekja reiði eða beina athygli að aukaatriðum þá á sú umræða og slík ræða ekki heima í dómsal og hún á heldur varla heima í sal hins háa Alþingis. Ég velti því fyrir mér þegar ég var að semja þessa ræðu, hvort skýringin á takmörkuðu trausti almennings til þessarar stofnunar hér kunni að leynast í því að almenningur á Íslandi, kjósendur, kunni að telja sig merkja ákveðinn falstón og sjálfsupphafningartón hjá mörgum þingmönnum og það er einmitt sá tónn sem ég hef því miður talið mig geta greint í ræðum stjórnarandstöðunnar í dag. Gagnrýni er út af fyrir sig góð og ég vil ekki standa í vegi fyrir því að fólk fái að koma hingað og tjá sig. En það getur ekki verið við hæfi að drótta sífellt að því að hér hafa verið framin lögbrot af hálfu ráðherra eða annarra án þess að geta vísað í nokkurn stað í þeirri skýrslu Ríkisendurskoðunar sem hér er til umræðu.

Ef við hyggjum aðeins að staðreyndum málsins þá segir á bls. 3 í títtnefndri skýrslu, með leyfi forseta:

„Úttekt Ríkisendurskoðunar er unnin á grundvelli laga nr. 46/2016 um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Með lögunum er embættinu falið að hafa eftirlit með fjárhagslegum hagsmunum ríkisins í umboði Alþingis. […]

Hún tekur þannig til þess hvernig staðið var að sölu umrædds eignarhluta út frá lögum, skilgreindum markmiðum með sölunni og sjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti.“

Svo segir á bls. 9, með leyfi forseta, orðrétt:

„Þrátt fyrir ýmsa annmarka á söluferlinu dregur Ríkisendurskoðun ekki í efa að fjárhagsleg niðurstaða söluferlis á hlut ríkissjóðs í Íslandsbanka þann 22. mars 2022 hafi verið ríkissjóði almennt hagfelld. Það á einnig við um þróun á gengi bréfa í bankanum á eftirmarkaði í kjölfar sölunnar. Þó er ekki hægt að fullyrða að salan hafi verið ríkissjóði eins hagkvæm og verða mátti.“

Þetta er nú ekki mikill áfellisdómur. Þetta er svipað og að segja að þetta hafi gengið vel, við unnum leikinn 2–0 en hefðum hugsanlega getað unnið hann 3–0. Þetta upphlaup hefur tekið heilan dag á þjóðþingi Íslendinga og ég get ekki ímyndað mér að annað þjóðþing í heiminum myndi líða aðra eins tímasóun og hér hefur mátt heyra og sjá. Ég get ekki dregið þá ályktun af þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar að lög hafi verið brotin en ég les það hins vegar út úr orðum stjórnarandstöðunnar að þar sé mikill vilji til að koma höggi á hæstv. fjármálaráðherra. Það virðist hafa verið gengið út frá því sem vísu að þessi skýrsla yrði töluvert dekkri en hún í raun er. Hér hafa fallið alls konar ummæli sem væri ástæða til að ítreka hér úr þessum ræðustól af hálfu þeirra sem komu upp fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, vísað til þess að skýrslan sýni fram á stórfellt gáleysi og stórkostlegt gáleysi og þessu hafi verið klúðrað og þar fram eftir götunum. Þetta er bara tilgáta en það getur verið að lágt traust almennings á Alþingi skýrist að einhverju leyti af því að fólk leyfi sér að segja hér hluti sem standast ekki skoðun.

Virðulegur forseti. Það auðveldasta í heimi er að gagnrýna og fordæma og það er mjög auðvelt að geta horft á atburðarás eins og þá sem við erum að horfa á hér í baksýnisspegli og fella dóma eins og einhverjir fótboltasérfræðingar á sunnudegi yfir leikjum sem voru spilaðir á laugardegi, en ég hef lifað nógu lengi til að geta séð það að öll mannanna verk eru gagnrýnisverð og er ég sjálfur alls ekkert yfir það hafinn að vera gagnrýndur. En það verður engu í verk komið án mistaka og án einhverra vankanta og að koma hingað upp í ræðustól og láta eins og þetta sé einhvers konar einsdæmi og eins og þetta séu stærstu mistök sem orðið hafa á síðustu árum eru ýkjur, hreint og beint ýkjur, og það eru óheilindi að halda því fram. Ég segi hins vegar að við sem þingmenn og þingheimur eigum að geta sameinast um að horfa á það sem hér hefur farið fram. Þetta er frumraun, má segja hér í lýðveldissögunni, að selja svona hluti með tilboðsfyrirkomulagi og það var í sjálfu sér kannski ekki annars að vænta en það yrðu einhverjir vankantar á þessu. Hér eru því tækifæri til að læra og sjálfsagt að ræða þetta og við getum hjálpað hvert öðru að gera betur næst. Ég get tekið fótboltasamlíkinguna aftur: Þótt einstakir leikmenn kunni að hafa brotið af sér þá þýðir það ekki að þjálfarinn verði gerður ábyrgur og rekinn fyrir það. Ef það verður niðurstaðan að einhverjir sem komu að söluferlinu hafi brotið reglur þá eiga þeir að sjálfsögðu að taka ábyrgð á því. En ábyrgðin verður að vera þar sem hún á heima því að það dettur varla nokkrum manni í hug að ráðherra eigi að vera að vakta í gjörgæslu allt það sem fram fer. Á hinn veginn er sannarlega farið fram á það að ráðherra láti þetta allt í friði og sé ekki með puttana í í þessu. Það verður að vera ákveðin samkvæmni í þessu og við verðum sem heild að geta lært af þessu.

Virðulegur forseti. Ef ég dreg þetta saman þá vil ég segja að það er sjálfsagt að ræða hlutina en það verður að gæta yfirvegunar og gagnrýni þarf að vera málefnaleg. Umræðan í dag hefur verið, vil ég segja, gölluð að þessu leyti og þó að ég sé nú bara hér í viku sem varaþingmaður þá væri það mín tillaga að þingheimur reyndi nú að sameinast til góðra verka. Það er búið að kjósa. Þingmenn eru dæmdir til að vera hér í stjórn og stjórnarandstöðu næstu árin og ég held að það væri farsælla að menn reyndu, í stað þess að vera í þessum hjaðningavígum hérna gagnvart persónum, að vinna saman fyrir þjóðina og hugsa: Hvernig getum við náð árangri? Hvað getum við lært? Menn reyndu að hefja málflutninginn hér upp á aðeins hærra plan.

Við skulum taka þetta saman, virðulegi forseti. Ég tel að salan sé góður áfangi, að leysa úr viðjum tugi milljarða sem unnt er að nýta til að byggja upp innviði, auka samkeppni og væntanlega viljum við flest halda áfram á þessari braut og læra af því sem gert hefur verið. Það færi betur á því að við drögum viðeigandi ályktanir og lærdóm og höldum áfram á þeirri braut sem meiri hluti þingmanna er sammála um, geri ég ráð fyrir, þ.e. að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka og nýta afraksturinn til að styðja innviði okkar góða samfélags.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.