153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

biðlistar í heilbrigðiskerfinu.

[15:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður kemur inn á aðra mikilvæga samninga. Ég get glatt hv. þingmann með að það hafa átt sér stað mjög gagnlegir fundir og búið er að endurskoða öll samningsmarkmið þegar kemur að sérfræðilæknum. Ég bind sömuleiðis vonir við að það muni nást saman.

Þrátt fyrir allt hefur verið keyrt á fullri afkastagetu hjá Klíníkinni. Þá höfum við opnað nýja skurðstofu á sjúkrahúsinu á Akranesi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, þannig að afkastagetan þar sem varðar liðskiptaaðgerðir hefur tvöfaldast. Þegar við erum búin að koma því í gagnið, ná saman og allir þessir aðilar koma saman að því að vinna niður biðlistana þá held ég að það muni glæðast í þessum efnum, enda er þetta risastórt lýðheilsumál eins og hv. þingmaður kom inn á. Þeir allra verkjuðustu geta þá lifað eðlilegu lífi, stundað vinnu o.s.frv.