153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

ástand vegakerfisins.

[15:32]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnirnar. Við tölum allt of sjaldan um samgöngumál miðað við það að þegar við förum og hittum íbúa þessa lands hafa þeir allir áhuga á samgöngumálum. Ætli við séum ekki með 360.000 sérfræðinga í hvernig eigi að vinna vegi, svona allt að því. Það er vegna þess að samgöngur skipta svo gríðarlega miklu máli. Þess vegna var ég svolítið undrandi þegar hv. þingmaður sagði að umræða síðustu ára hefði snúist um hvaða vegir væru slæmir. Það er alrangt hjá hv. þingmanni. Umræða síðustu ára hefur snúist um hvað það eru gríðarlega miklar framkvæmdir í gangi en hvað verkefnið er stórt. Það er allt annað mál og auðvitað er hægt að finna einstaka vegi sem ekki eru nægilega góðir en það er gríðarleg framför sem við höfum náð á síðustu árum, enda höfum við verið að setja í það verulega fjármuni. Ríkisstjórnin ákvað að setja hér sérstakt fjárfestingarátak í gang, sem er akkúrat það sem hv. þingmaður var að tala um, að þegar kreppti að og þegar það virtist þurfa innspýtingu settum við umtalsverða fjármuni einmitt í vegagerð og uppbyggingu og fjárfestingar í samgöngum vegna þess að þar áttum við til undirbyggðar og rannsakaðar áætlanir um uppbyggingu, bara tilbúnar, og þurfum alltaf að eiga slíkt til.

Hv. þingmaður nefndi líka að kostnaður bíleigenda væri mjög hár og færi vaxandi. Það er alrangt. Hann var miklu hærri á fyrstu átta árum þessarar aldar en hann hefur verið síðastliðin tíu ár, því að hann hefur farið lækkandi, m.a. vegna þess að hér er fullt af nýorkubílum. En hæstv. ráðherra mun að sjálfsögðu beita sér fyrir uppbyggingu á tengivegum og á þeim vegum sem þurfa á verulegu viðhaldi að halda. Og hvernig höfum við gert það? Við erum búin að meira en tvöfalda peninga til tengivega á þessum síðustu árum og munum hafa það þannig næstu ár og í næstu samgönguáætlun þurfum við að bæta í. Þegar ég tók við hér (Forseti hringir.) voru 5,5 milljarðar í viðhald, m.a. til að byggja upp slíka vegi sem malbikið hefur slitnað á, þeir peningar hafa nú meira en tvöfaldast. (Forseti hringir.) Þannig að ráðherrann hefur beitt sér fyrir því og mun svo sannarlega halda því áfram með stuðningi Alþingis.