Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Fjölþáttaógnir og netöryggismál.

[16:07]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu, sem fer auðvitað út um víðan völl eins og viðfangsefnið, netöryggi og fjölþáttaógnir. Mig langar, það er minn túkall inn í umræðuna, að tala aðeins um hvað stjórnvöld eru að gera og geta gert til þess að fræða almenning um þá fjölþáttaógn sem við stöndum frammi fyrir, fræða ungt fólk, börn — já, og kannski bara okkur öll, um það hvernig við getum tekið á móti upplýsingum með gagnrýnum hætti og hvernig við getum lesið á milli línanna þegar verið er að miðla upplýsingum sem eru kannski ekki alveg í samræmi við bestu þekkingu og vitneskju.

Nú er það svo að ég og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson erum eiginlega ekki sammála um neitt en við erum þó sammála um þetta, að heiminum stafar ógn af falsfréttum, sem stundum koma frá einkaaðilum en stundum frá stjórnvöldum. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni. En til að við getum varist falsfréttum þurfum við að þjálfa almenning, okkur hér innan lands, og stjórnvöld þurfa að fara þar fremst í flokki, í að reyna að greina falsfréttir, að vera læs á fréttir almennt, að greina hvenær meðvitað er verið að dreifa röngum fréttum, en að vera líka meðvituð um að það þarf ekki að vera falsfréttir þó að ekki séu allir sammála. Skoðanaskipti eru ekki falsfréttir heldur getur fólk einfaldlega verið að skiptast á upplýsingum sem ber ekki saman. Það þarf ekki að vera falsfrétt. En við þurfum einhvern veginn að efla samfélagið í þessu og efla þá unga fólkið okkar fyrst og fremst, en ekki síður bara okkur miðaldra fólkið og eldra fólk, í að greina fréttir og vera gagnrýnin á þær upplýsingar sem berast bæði frá stjórnvöldum en líka frá öðrum aðilum.