Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:45]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðu sína um skýrslu um áfallastjórnun stjórnvalda í Covid-faraldrinum. Þegar maður skoðar skýrsluna og sér lokakaflann og kaflann á undan sem er kafli 56.5, Um frekari rannsóknir vegna Covid-19, og þegar maður skoðar líka erindisbréfið þá sýnist mér þetta vera, ég segi ekki innanhússplagg fyrir stjórnvöld eða Stjórnarráðið, en vera um mjög afmarkaðan þátt Covid-faraldursins, um áfallastjórnunina og þætti sem lúta að stjórnvöldum beinlínis. Spurningin er þessi: Væri ekki rétt og eðlilegt að það yrði skipuð rannsóknarnefnd Alþingis til að gera úttekt á Covid-faraldrinum á Íslandi, áhrifum hans á samfélagið, viðbrögð stjórnvalda og fjalla um það á mjög djúpan hátt sem næði yfir breiðara svið en hér er? Ég nefni sem dæmi að bæði í Noregi og í Bretlandi hafa þingnefndir verið stofnaðar til þessa, í Noregi var nefnd sem rannsakaði Covid-faraldurinn og hún skilaði skýrslu í fyrra, ef ég man rétt, síðasta vor. Í Bretlandi hefur líka verið rannsóknarnefnd að störfum og ég veit ekki hvort hún sé búin að skila af sér enn þá. En væri ekki rétt að Alþingi Íslendinga myndi setja á fót rannsóknarnefnd á grundvelli laga um rannsóknarnefndir?