Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu Alþingis að meta það hvort það kýs að rannsaka þetta frekar en orðið er og það er þá forsætisnefnd Alþingis sem tekur það til umræðu. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni þegar hann segir að þetta sé innanhússplagg því að hér eru fengnir fræðimenn með mjög ólíkan bakgrunn, öll úr fræðasamfélaginu, með mismunandi sérþekkingu sem fá í raun og veru algjört frelsi til að takast á við viðfangsefnið út frá erindisbréfinu. Ætlunin er að sjálfsögðu, eins og ég fór yfir í minni ræðu, að tryggja að stjórnvöld geti dregið lærdóm af eigin viðbrögðum og fengið hlutlausa úttekt á því hvernig til tókst í þeim viðbrögðum. Það skiptir auðvitað verulegu máli þegar við er að eiga vá eins og heimsfaraldur kórónuveiru að við förum yfir viðbrögðin með gagnrýnum hætti og það var ætlunin með þessu. Ég kýs nú ekki að kalla þetta innanhússplagg því þó að megináherslan sé á stjórnvöld, bæði stofnanir ríkisins, ríkisstjórn, ráðherranefndir, Alþingi og svo sveitarfélög, þá eru það þessir aðilar sem hafa hvað mest að segja um það hvernig til tekst í baráttunni við faraldurinn. Ákvarðanir og vinnulag þessara aðila varðar auðvitað allan almenning, þannig að ekki get ég fallist á það. En auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um viðbrögð stjórnvalda.