Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:48]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég er að benda á er að sjálfstæð rannsóknarnefnd Alþingis myndi geta skoðað þessi mál á annan hátt, skoðað þennan heimsfaraldur sem við getum sagt að gerist einu sinni á 100 ára fresti. Spænska veikin var árin 1918–1919 og svo kemur Covid-heimsfaraldurinn í nóvember, desember árið 2019, fer á fullt skrið vorið 2020. Að vissu leyti er þetta gríðarlega mikilvægt plagg, að stúdera áfallastjórnun stjórnvalda og að dreginn verði lærdómur af viðbúnaði og viðbrögðum stjórnvalda sem nýta megi til stefnumótunar vegna annarra áfalla í framtíðinni. En það breytir því ekki að rannsóknarnefnd myndi hafa miklu víðtækari heimildir og væri miklu sjálfstæðari í störfum sínum til að rannsaka þennan heimsfaraldur. Ég tek sem dæmi að það mun koma aftur heimsfaraldur, það mun kannski ekki gerast á okkar lífstíð en það gæti gerst. En þetta var séð fyrir. Áhættustjóri í bandarísku fyrirtæki var spurður árið 2017, minnir mig, hvað væri það hættulegasta sem gæti gerst í Asíu. Jú, það væri kórónuveirufaraldur sem myndi koma frá votmarkaði í Kína. Þetta var svona 2017, 2018. Það er mjög líklegt að við munum verða fyrir öðrum faraldri í framtíðinni vegna fjölónæmra baktería, ef ég man nafnið rétt. Það er ekkert ólíklegt að við verðum fyrir öðrum faraldri af öðrum toga. Það er mjög mikilvægt að læra af reynslunni því að þetta hefur líka gríðarleg samfélagsleg áhrif, langt út fyrir áfallastjórnun stjórnvalda. Ég get líka tekið dæmi um áhrif á hagkerfið og hvernig við komum út úr Covid og ekki síst hver stuðningur stjórnvalda var við hagkerfið á sínum tíma, hvort þau hafi verið að setja of mikla peninga inn í hagkerfið eða ekki. Vorum við að prenta of mikið af seðlum vegna fyrirtækja sem þurftu þess ekki o.s.frv.? Ég tel að það væri mjög eðlilegt að við myndum stofna rannsóknarnefnd Alþingis og ég vona að hæstv. forsætisráðherra eða þingmeirihluti sem er að baki stjórnvalda vonandi enn þá — ef stjórnin tæki það upp hjá sjálfri sér að stofna rannsóknarnefnd þá er það hið besta mál.