Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Þegar heimsfaraldur skall á var þjóðin fljót að átta sig á að alvara væri á ferðum og að við þyrftum öll að standa saman ef árangur ætti að nást. Við treystum vísindamönnunum best og almannavörnum. Ógnin sem blasti við samfélaginu var heilsufarsleg en ekki síður efnahagsleg og við urðum margs vísari um veikleika samfélagsins. Á nokkrum vikum umturnaðist tilveran og við vissum ekki hvað beið okkar, aðeins það að lífið yrði ekki alveg eins og það var í febrúar 2020. Í heimsfaraldrinum reyndi mikið á kerfin okkar, það reyndi á heilbrigðiskerfið sem aldrei fyrr og það reyndi á velferðarkerfið við að verja almenning fyrir afleiðingum þess að tekjur sumra heimila féllu og sum fyrirtæki fóru illa.

Ferðaþjónustan er stærsta atvinnugreinin og við höfum veðjað á hana til framtíðar. Nú hefur hún náð sér að nýju en við verðum samt að muna hversu hættulegt það er að treysta svo mikið á eina atvinnugrein ef hún lendir í vanda. Því verðum við að finna leiðir til að renna fleiri öflugum stoðum undir atvinnulífið og efla þær sem fyrir eru til nýrrar sóknar. Það skiptir máli hverjir halda um stjórnartaumana því að það skiptir máli hvernig peningum skattgreiðenda er varið. Ákvarðanir um hvert samfélagið stefnir eftir Covid, hvernig tekið er á áfallinu og hvernig stuðningi er háttað við þá sem þurftu að bera þyngstu byrðarnar eru pólitískar. Öll nágrannaríki okkar unnu að lausnum fyrir fyrirtæki líkt og stjórnvöld hér á landi. Unnið var gegn atvinnuleysi með framkvæmdum og störfum á vegum ríkis og sveitarfélaga. Fyrirtækjum voru boðin lán á góðum kjörum, styrkir lagðir til þeirra sem var gert að loka vegna Covid-19 og frestun var á ýmsum greiðslum, meira að segja fengu fyrirtæki styrki til að borga laun í uppsagnarfresti. Ekkert annað land hjálpaði fyrirtækjum að segja upp fólki, enda ótrúleg framkvæmd þegar nær hefði verið að leggja aukna áherslu á að halda starfsmönnum í ráðningarsambandi á meðan erfiðleikarnir gengu yfir.

Það var nauðsynlegt að koma fyrirtækjum í vanda til aðstoðar. Það var ríkisstjórnin líka tilbúin til að gera en hún gerði ekki nóg fyrir fólkið sem missti vinnuna eða samfélögin sem glímdu við mesta atvinnuleysið. Athygli vekur að félagslegar mótvægisaðgerðir stjórnvalda beindust ekki sérstaklega að einstæðum foreldrum. Í skýrslunni segir að engar sértækar aðgerðir hafi beinst að þeim hópi þó að almennar aðgerðir fyrir fjölskyldur, svo sem hækkun barnabóta, hafi nýst þeim. Einstæðir foreldrar eru í viðkvæmri stöðu þar sem þeir eru oft einir á hinni svokölluðu þriðju vakt og þurfa einir að sinna umönnun barns eða barna, heimilisstörfum og launaðri vinnu. Lítið má út af bera hjá einstæðum foreldrum enda eru þeir oftar undir fátæktarmörkum en foreldrar í sambúð. Bent er á í skýrslunni að rétt sé að kanna í kjölfar faraldursins afdrif foreldra ungra barna, bæði lögheimilis- og umgengnisforeldra sem ekki deila heimili, með tilliti til efnahags- og sálfélagslegra áhrifa.

Frú forseti. Ég vil nefna Suðurnesin sem dæmi um samfélag sem varð áþreifanlega fyrir barðinu á atvinnuleysi í heimsfaraldri. Erfiðasti tíminn var þar þegar atvinnuleysið mældist 25%, þegar fjórði hver vinnandi maður gekk þar atvinnulaus. Suðurnesin fengu mikinn skell þegar WOW-air fór á hausinn og var atvinnuleysi komið í 10% þegar heimsfaraldur skall á. Á svæðinu glíma margir við afleiðingar langtímaatvinnuleysis sem eru allt í senn félagslegar, heilsufarslegar og efnahagslegar.

Lykilstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, er fjársvelt og ekkert er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar til að mæta vanda stofnunarinnar og þjónustuþörfinni á svæðinu, sem er ekki bara mikil vegna mikillar fjölgunar íbúa heldur einnig vegna fjölbreytileikans sem bæði auðgar samfélögin og kallar á flóknari félags- og skólaþjónustu og túlkaþjónustu, ekki síst við heilsugæslu. Krefjandi og kostnaðarsamt er fyrir skólasamfélagið þar að koma til móts við hvert og eitt barn líkt og lögbundið er. Almennt komu veikleikar fram í heilbrigðiskerfinu í Covid-faraldrinum og viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru ekki til þess fallin að mæta þeim veikleikum með raunhæfum hætti. Þvert á móti er veikleikum viðhaldið með óásættanlegu aðgerðaleysi og að því er virðist skilningsleysi á erfiðum aðstæðum heilbrigðisstarfsfólks og fólksins sem þarf á þjónustu þess að halda.

Forseti. Ég vil nýta það sem eftir er af ræðutíma mínum til að tala um andlega líðan ungs fólks, sér í lagi ungra kvenna og stúlkna. Ég verð að segja að eftir að hafa lesið niðurstöður skýrslunnar um andlega líðan ungra stúlkna og kvenna setti mig eiginlega hljóða. Niðurstöðurnar eru sláandi og ættu að leiða til stórátaks í geðrækt hjá ungu fólki, auk þess sem beina þarf sjónum sérstaklega að unglingsstúlkum og ungum konum. Niðurstöðurnar eru sérstakt áhyggjuefni í ljósi þess að versnandi andleg líðan ungs fólks virðist ekki eingöngu tengjast heimsfaraldri heldur hefur andleg heilsa ungs fólks farið versnandi með hverju ári allt frá árinu 2007.

Forseti. Hvernig metum við gott samfélag? Hæstv. fjármálaráðherra hreykir sér reglulega af þeim stórkostlega árangri sem náðst hefur undir hans stjórn. Staða ríkissjóðs er miklu betri en búist var við og kaupmáttur aldrei meiri, segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu frá því í haust. Hvergi er minnst á hvernig nýta eigi betri stöðu til að bæta heilbrigði og líðan fólksins í landinu. Hvergi er minnst á að andleg líðan unga fólksins okkar hefur aldrei mælst verri og að nauðsyn sé á að forgangsraða málefnum þess framar og fjármagna aðgerðir. Í þeim mælingum og rannsóknum sem greint er frá í skýrslunni benda allar niðurstöður í eina átt. Andleg heilsa íslenskra barna, sér í lagi stúlkna, fer hratt versnandi. Samkvæmt rannsókninni fundu 64% stúlkna í tíunda bekk fyrir depurð vikulega eða oftar samanborið við 48% árið 2018. Hjá drengjum er hlutfallið rúm 31% og hefur aukist um 2 prósentustig frá árinu 2018.

Niðurstöður varðandi kvíða eru sömuleiðis áhyggjuefni en 77% stúlkna í tíunda bekk finna fyrir kvíða vikulega eða oftar samanborið við 38% drengja. Já, forseti, það er sama hvaða rannsókn er lesin. Allar sýna þær að andleg heilsa íslenskra stúlkna fer hratt versnandi. Einhverra hluta vegna líður drengjunum okkar mun betur þó svo að andleg heilsa þeirra fari líka versnandi, þó mun minna en hjá stúlkunum. Til hvaða aðgerða hafa stjórnvöld gripið til að vernda stúlkurnar okkar? Hefur verið sett af stað vinna til að draga úr andlegri vanlíðan ungra stúlkna og kvenna eða þurfa þær kannski bara enn eina ferðina að vera duglegri að hjálpa sér sjálfar?

Þetta eru sláandi niðurstöður. Einungis 27% stúlkna í tíunda bekk sögðu staðhæfinguna „ég er ánægð með líf mitt“ eiga við sig árið 2022. En hér í okkar stéttlausa landi tækifæranna er allt í stakasta lagi, ekki satt? Hlutfall stúlkna í tíunda bekk sem telja sig hamingjusamar fer úr 40% árið 2018 niður í 28% árið 2022. Fer ekki að koma tími á annað gildismat og annars konar pólitík? Hvað segja þessar niðurstöður um íslenskt samfélag og pólitíska forgangsröðun? Það er eitthvað mikið að þegar einungis 27% stúlkna í einu ríkasta landi í heimi segjast vera ánægðar með líf sitt. Við verðum að forgangsraða öðruvísi og leggja aukna áherslu á að skapa samfélag þar sem fólki líður vel, þar sem stjórnvöld hafa það markmið að auka andlega og líkamlega vellíðan fólks, ekki síst barna.

Andleg vanlíðan stúlkna fylgir þeim inn í fullorðinsárin. Í þeim rannsóknum á líðan ungs fólks sem greint er frá í skýrslunni benda allar niðurstöður til þess að líðan kvenna sé marktækt verri en karla. Í fyrsta sinn frá upphafi mælinga hefur orðið marktæk fækkun meðal þeirra sem töldu sig hamingjusöm og enn er munur milli kynjanna töluverður. Árið 2021 mátu 46% ungra kvenna andlega heilsu sína góða borið saman við 65% ungra karla. Þegar kemur að streitu er mjög áhugavert að skoða mun milli kynjanna en streita jókst hjá konum eftir að Covid hófst en stóð í stað eða minnkaði hjá körlum, ef frá er talinn yngsti hópurinn. Hlutfall kvenna sem finnur oft eða mjög oft fyrir streitu í þremur yngstu aldurshópunum er frá 40%–45% en hlutfallið hjá körlum er 30% í sömu aldurshópum. Í skýrslunni segir að mögulega megi leita skýringa á aukinni streitu kvenna í hinum kynjaða vinnumarkaði þar sem konur bera t.d. hitann og þungann af heilbrigðis- og umönnunarþjónustu hérlendis og þar jókst álagið augljóslega mikið í faraldrinum. Óumdeilt er að stóru kvennastéttirnar; hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og starfsfólk í ræstingum, báru uppi umönnunar- og heilbrigðisþjónustu auk þess sem konur eru meiri hluti starfsfólks í skólum og ákveðnum þjónustustörfum. Það voru konur sem héldu hér uppi stórum hluta grunnþjónustunnar á tímum Covid og gera enn. Það er því ekki furða þó að konur hafi fundið fyrir aukinni streitu á meðan karlarnir í öllum aldurshópum nema þeim yngstu fundu engan mun. Þá sýna niðurstöður einnig að streita er langmest meðal þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman, t.d. finnur yfir helmingur kvenna sem á erfitt með að láta enda ná saman fyrir mikilli streitu í daglegu lífi, borið saman við 25% þeirra sem eiga auðvelt með það.

Nauðsynlegt er að bregðast við þessari stöðu. Það blasir við að endurhugsa þarf allan stuðning og forvarnir þegar kemur að geðheilbrigðismálum á Íslandi. Samfélag þar sem innan við þriðjungur ungra stúlkna telur sig hamingjusamar er ekki í lagi.