Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[17:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um margt mjög góða skýrslu að ræða. Hún vekur margar spurningar og í henni eru áhugaverðar ábendingar sem vert er að stjórnvöld taki til sín. Eins og kom fram í andsvörum þá hef ég verið að hugsa og tel að rétt væri að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd til að rannsaka viðbrögð stjórnvalda og áhrif Covid-19 faraldursins. Ég tel að áhrifin af þessum heimsfaraldri séu mjög víðtæk á allt samfélagið og líka að mikilvægt sé að rannsaka efnahagslega þáttinn, þ.e. hvernig efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar höfðu áhrif á samfélagið og hagkerfið. Ég tel að þar vakni mjög áhugaverðar spurningar.

Að mörgu leyti komum við vel út úr Covid. Það var 65 milljörðum meira í ríkiskassanum en gert var ráð fyrir en það sýnir ekki endilega að aðgerðir stjórnvalda hafi verið réttar. Það sýnir kraftinn í íslensku hagkerfi og það að ferðamenn fóru að koma til landsins, svo það liggi fyrir.

Ef maður skoðar erindisbréf nefndarinnar þá átti hún m.a. að fjalla um undirbúning og viðbúnað stjórnvalda vegna farsótta, þar á meðal þátt almannavarna. Eins og ég minntist á í andsvörum við hæstv. forsætisráðherra þá vissu menn að þessi kórónuveirufaraldur myndi líklega koma aftur. Þetta er sami veirustofn og í svokölluðum SARS-faraldri sem olli miklum usla í Hong Kong og síðan í Taívan. Þau ríki sem við eigum að bera okkur saman við varðandi árangur stjórnvalda og áhrif á samfélagið eru einmitt ríki eins á Taívan og Nýja-Sjáland. Bæði eru þetta eyjar sem tókst mjög vel upp á sínum tíma, vörðu sín innri hagkerfi snilldarvel í a.m.k. tvö ár og örfá smit voru í báðum þessum samfélögum.

Hins vegar var ekki svo á Íslandi. Ísland er eyja í Norður-Atlantshafi með raunverulega einn millilandaflugvöll, sem er Keflavíkurflugvöllur. Taívan er líka eyja með 23 milljónum manna og Nýja-Sjáland er með 4 eða 5 milljónir manna. Við eigum að bera okkur saman við þessi ríki þegar kemur að árangri varðandi ákvarðanir og áfallastjórnun stjórnvalda til að takast á við kórónuveirufaraldurinn. Ég get rifjað upp hér að formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, var í Kastljósi og hvatti til þess að landinu yrði lokað og varð fyrir miklum árásum í Kastljóssþætti RÚV fyrir það. Hún lagði til að loka landinu, og til hvers? Jú, til að verja innra hagkerfi Íslands, svo íslensku samfélagi yrði ekki lokað. Hún fékk mjög beinskeyttan stjórnanda sem er núna kominn í pólitík og var í pólitík í þeim þætti — margt gerist á þessari sérstöku sjónvarpsstöð.

Ég vil meina að okkur hafi ekki tekist vel í því að verja innra hagkerfi landsins, ekki á nokkurn einasta hátt. Hins vegar var reynt að markaðssetja Ísland fyrir útlendinga sem griðastað fyrir Covid. Þið munið eftir gulu hátölurunum á svarta sandinum þar sem fólk átti að fá að öskra — það var markaðssetningin. Hvað gerðist? Jú, önnur Covid-bylgja skall á landinu. Því var árangur af áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda ekki glæsilegri en það að við lentum aftur í Covid-faraldri og önnur bylgja kom út af markaðssetningu landsins til ferðamanna. Þar fylgdum við ekki fordæmi Taívan og Nýja-Sjálands.

Varðandi undirbúning stjórnvalda fyrir heimsfaraldurinn þá held ég að hann hafi ekkert verið sérstakur. Við vorum hins vegar heppin að hafa afburðafólk sem stjórnaði þessum aðgerðum. Stjórnvöld létu embættismenn sjá um verkið, hið svokallaða þríeyki. Þar var sóttvarnalæknir fremstur í flokki og gegndi gríðarlega mikilvægu hlutverki sem og fulltrúar almannavarna hjá ríkislögreglustjóra og landlæknir. Það voru þessir embættismenn sem tóku allar mikilvægustu ákvarðanirnar varðandi það að tryggja að farsóttin dreifðist ekki allt of víða. Það voru ekki stjórnmálamennirnir, svo það liggi fyrir. Vissulega voru samskipti þar á milli en það voru minnisblöð sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra sem stjórnuðu för.

Ég tel mjög mikilvægt að við höldum í svipað kerfi eins og við höfum haft og það er mjög mikilvægt að við breytum ekki valdi eins og þegar hugmyndir voru um að ákvarðanir sóttvarnalæknis færu í nefnd. Það tel ég ekki vera rétt. Ég tel mjög mikilvægt að við höfum leiðtoga sem geta tekið ákvarðanir, einstaklinga sem geta tekið ákvarðanir og að það séu ekki nefndir sem gera það. Segjum að sóttvarnalæknir hefði verið sóttvarnanefnd. Vissulega er hægt að bera þetta undir sóttvarnaráð eins og lögin kveða á um en gefum okkur það að sóttvarnanefnd hefði verið að skrifa þau minnisblöð sem sóttvarnalæknir skrifaði til heilbrigðisráðherra. Hún hefði getað klofnað og þar verið minni hluti, það hefði farið út í samfélagið og þá gæti fólk sagt: Ég er sammála minni hluta en ekki meiri hluta sóttvarnaráðs.

Ég tel að Ísland sé í sjálfu sér land sem er gott í krísustjórnun. Við erum ekki svo góð í að stjórna frá degi til dags eða gera áætlanir um það hvernig við eigum að haga okkar hagkerfi og öðru slíku, en erum hins vegar mjög góð í krísustjórnun í náttúruvá og farsóttum og erum fljót til. Mig langar aðeins að fara ofan í þau atriði sem þar geta skipt máli. Til dæmis kemur fram almenn ábending um að samskipti stjórnvalda hafi verið óformleg og aðgerðir hafi í vissum tilvikum verið ákveðnar og undirbúnar á óformlegan hátt. Það telur skýrslan að sé ákveðinn ljóður, en það er styrkleiki í krísustjórnun þar sem við tökum skjótt ákvarðanir. Það varð hér hrun og þá var íslenska stjórnkerfið mikið dásamað og hvað ákvarðanir voru teknar fljótt, en það var af því að við nýttum okkur þessi óformlegheit, allir héldu að þeir gætu allt og gengið í öll verk. Þessi skortur á formfestu olli hins vegar hruninu og við tókum allt of mikla áhættu þar. Þetta hjálpaði okkur hins vegar í Covid-faraldrinum. Í ábendingu skýrslunnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Formfestan tryggir t.d. betur að hlutverk aðila séu skýr og auðveldara fyrir nýja aðila (s.s. starfsmenn og embættismenn) að koma að verkefnum ef lykilstjórnendur forfallast. Ábendingarnar hér að framan um undirbúning ákvarðana um opinberar sóttvarnaráðstafanir og um varðveislu og aðgang að rafrænum gögnum tengjast þessari ábendingu.“

Hér er greinilega mjög mikið af ábendingum til stjórnvalda sem mikilvægt er að stjórnvöld taki á.

Varðandi önnur atriði í skýrslunni sem eru mjög áhugaverð þá segir, með leyfi forseta:

„Annar meginlærdómur sem draga má af viðbrögðum við Covid-19 faraldrinum er að gefa þarf aukinn gaum að þeirri umfangsmiklu velferðarþjónustu sem sveitarfélög veita viðkvæmum hópum og almenningi, sem halda þarf órofinni á tímum áfalla.“

Þegar við skoðum velferðarþjónustu sveitarfélaga og sveitarfélögin í landinu — og ég á sæti í fjárlaganefnd — þá sjáum við að þau eru kerfisbundið fjársvelt af ríkisvaldinu, t.d. varðandi NPA-samningana og fleiri verkefni sem þeim eru falin án þess að þeim fylgi fjárveitingar. Það þarf að taka algerlega á því og breyta viðhorfi stjórnvalda til sveitarfélaga varðandi fjárveitingar. Þetta kerfisbundna fjársvelti verður að stoppa. Þetta er aðalástæðan fyrir gríðarlegum halla sveitarfélaganna ár eftir ár.

Annað áhugavert atriði í skýrslunni er þar sem segir, með leyfi forseta: „Í lög þurfi skýrari ákvæði um það hvað felst í yfirstjórn almannavarnaaðgerða.“ Þarna þarf að skýra miklu betur hlutverk almannavarna og hvert sé hlutverk yfirstjórnarinnar, hvaða ákvarðanir hún geti tekið og hvaða valdheimildir hún hafi. Það kemur aftur að því sem lýtur að hinum óformlegu samskiptum sem áttu sér stað, sem eru mjög áhugaverð í öllu þessu máli.

Einnig er áhugavert þar sem fjallað er um flækjustig í skýrslunni, að flækjustig á reglugerðum og breytingum á reglugerðum ráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir hafi verið allt of hátt. Þetta sýnir að festan í stjórnsýslunni hafi einfaldlega ekki verið fyrir hendi. Það er gríðarlega mikilvægt að ábyrgð hvers og eins aðila sé skýr að öllu leyti og flækjustigið sé ekki of mikið vegna þess að það getur tafið ákvarðanir og viðbrögð á allan hátt. Eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Örar breytingar og flóknar reglur gátu leitt til vafa hjá þeim sem þurftu að fylgja reglunum, t.d. þeim sem þurftu að ferðast á milli landa, og líka hjá þeim stjórnvöldum sem þurftu að túlka þær og framfylgja, s.s. lögreglu og skólastofnunum. Það er mjög æskilegt að leita leiða til að setja einfaldari reglur og leita leiða til að koma reglum á framfæri með skýrari og aðgengilegri hætti í framtíðinni. Slíkt getur einnig átt við um önnur áföll en farsóttir. Í því efni eru ýmsar leiðir færar, t.d. voru hér í Covid-19 faraldrinum gerðar tilraunir með notkun litakóða.“

Í miðjum faraldri var því farið í ákveðna tilraunastarfsemi með litakóða varðandi almannavarnastig. Þessir litakóðar eru enn þá í reglugerð. Í breytingarfrumvarpi til breytinga á lögum um almannavarnir voru þessar litakóðaskilgreiningar ekki settar inn varðandi almannavarnir, þær eru enn þá í reglugerð. Ég tel það vera mjög miður og benti ítrekað á það í allsherjar- og menntamálanefnd án árangurs, enda var það frumvarp bara keyrt í gegn eins og önnur stjórnarfrumvörp.

Önnur ábending sem er mjög áhugaverð er sú að unnið verði að samhæfingu velferðarþjónustu og almannavarnaviðbragða. Þarna komum við aftur að samskiptum miðstjórnarvaldsins við sveitarfélögin, að stjórnsýslustigið geti unnið saman á samhæfðan hátt þegar kemur að flóknum aðgerðum sem þurfa mikla og nákvæma útfærslu á tímum eins og í heimsfaraldri. Það byggir líka á því að þekking sé til staðar í velferðarþjónustu og almannavarnaviðbragði.

Einnig eru viðbrögð vegna tilkynninga um ofbeldi og vanrækslu barna mjög áhugaverð. Í skýrslunni er fjallað um barnavernd. Þar kemur fram að áætlað er að tilkynningar hafa borist vegna tæplega 11.000 barna árið 2021. Með leyfi forseta:

„Til að hægt sé að kanna öll mál með viðhlítandi hætti og veita þá þjónustu og stuðning sem slík mál krefjast þarf að tryggja að barnavernd sé í stakk búin til að sinna þessum málafjölda og þeim börnum sem um ræðir.“

Hér er gríðarlega mikilvægur liður í skýrslunni og mikilvægt atriði sem þarf greinilega að taka á. Börn eru einn viðkvæmasti hópurinn þegar kemur að heimsfaraldri og sóttum eins og Covid-19. Börn ásamt fötluðum, öldruðum og öryrkjum eru þeir hópar sem stjórnvöld þurfa sérstaklega að beina sjónum að.

Í skýrslunni er fjallað um geðvernd barna og eins og hv. þm. Oddný G. Harðardóttir talaði um þá vekur sá mikli munur á líðan stúlkna og drengja athygli, stúlkum í óhag. Það er klárt mál að í framtíðinni þarf að huga enn betur að þessu atriði.

Ég tel að þessi skýrsla sé um margt mjög góð. Hún fjallar t.d. um samvinnu milli ráðuneyta og stofnana, stjórnmála- og embættismanna, opinberra aðila og einkaaðila og samspil framkvæmdarvalds og Alþingis. Ég tel að við höfum verið mjög heppin með það hversu vel mönnuð við vorum af embættismönnum á þessu sviði og þá tala ég sem almennur borgari. Ég var ekki á þingi og ég var ekki inni í stjórnkerfinu á þessum tíma, en það er augljóst mál að þríeykið svokallaða á heiður skilinn fyrir framgöngu sína, þær ákvarðanir sem teknar voru og hvernig upplýsingagjöf var háttað á þeim tíma. Ég held að skýrslan sé vissulega gott innlegg en hún er engan veginn fullnægjandi plagg sem úttekt á Covid-19 og hvernig stjórnvöld unnu. Ég tel að það sé alveg skýrt að frekari rannsóknir á Covid-19, eins og fjallað er um í 56. kafla, (Forseti hringir.) kalli á rannsóknarnefnd Alþingis til að fara nánar í saumana á málinu, líkt og búið er að gera í Noregi og Bretlandi.