Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:22]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Í upphafi Covid-faraldursins var ég ekki í hópi þeirra sem hafði hvað hæst í gagnrýni á stjórnvöld, a.m.k. ekki opinberlega, vegna þeirra takmarkana sem gripið var til, takmarkana á borgaralegum réttindum í baráttu við veiru sem læknavísindin höfðu litla þekkingu á. Ég taldi og tel að það sé réttlætanlegt og nauðsynlegt þegar óþekktur ógnvaldur herjar á þjóð að stjórnvöld grípi til ráðstafana til að verja líf og heilsu almennings, jafnvel þótt frelsi einstaklinga sé skert tímabundið. Þessi afstaða er byggð á þeirri sannfæringu að ein grunnskylda ríkisvaldsins sé að bregðast við þegar samfélaginu er ógnað enda sé farið að öllum meginreglum réttarríkisins og stjórnarskrár. Ég undirstrika þetta.

Við eigum sem sagt í mínum huga að viðurkenna að það er nauðsynlegt að stjórnvöld geti gripið til aðgerða í sóttvörnum til að verja almenning á hættutímum. En um leið verðum við að gera ákveðnar kröfur til stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda, að þau viðmið sem stuðst er við séu skýr, öllum ljós og taki mið af breyttum aðstæðum og betri þekkingu, að gætt sé samkvæmni í yfirlýsingum og upplýsingum, að hægt sé að treysta því að aldrei sé gengið lengra en þörf er á, að meðalhóf ráði alltaf för, að stjórnvöld virði grunnréttindi borgaranna og starfi innan þeirra valdmarka sem þeim er mörkuð, að ekki sé kynt undir ótta til að réttlæta skerðingu á borgaralegum réttindum, að málefnalegum athugasemdum og gagnrýni sé ekki mætt af hroka þeirra sem telja sig umboðsmenn valdsins eða þekkingarinnar, að spurningum sé svarað, að viðurkennt sé að þrátt fyrir að stjórnvöld beri skyldur til að bregðast við þegar samfélaginu er ógnað þá skipti til lengri tíma litið meira máli að farið sé að meginreglum réttarríkis og stjórnarskrár þegar glímt er við aðsteðjandi hættu.

Á þetta benti Sumption lávarður, sem er fyrrverandi dómari við Hæstarétt Bretlands, í fyrirlestri við Cambridge-háskóla í október 2020 þegar faraldurinn var í hámarki. Hann benti á að í frjálsu landi sé sérstaklega mikilvægt að stjórnvöld á hverjum tíma virði grunnréttindi borgaranna og starfi innan þeirra valdmarka sem þeim eru mörkuð. Í mörgu tókst okkur vel upp í baráttunni við skæða veiru hér á Íslandi. Árangurinn í samanburði við önnur ríki er góður þegar litið er á áhrif á líf og heilsu. Þá hafa samantektir sýnt og staðfest góðar niðurstöður hvað efnahagsmál varðar borið saman við önnur lönd. Þar liggja t.d. til grundvallar norrænar samanburðarrannsóknir. Þrátt fyrir að faraldurinn hafi, eins og við vitum öll, haft gríðarleg efnahagsleg áhrif hér á Íslandi, eins og raunar annars staðar, sem birtist m.a. í miklum samdrætti landsframleiðslu og miklu atvinnuleysi, þá virðast samfélagsleg áhrif a.m.k. ekki hafa verið meiri hér á Íslandi heldur en annars staðar — en samanburðarrannsóknir hafa lítið sem ekkert verið gerðar, a.m.k. ekki það er ég þekki. Okkur vantar slíkar upplýsingar.

Það er hins vegar staðreynd að íslenskt samfélag, eins og raunar önnur norræn samfélög, stóð að mörgu leyti vel að vígi gagnvart þeim áskorunum sem við þurftum að mæta í faraldrinum. Húsnæði er gott, innviðir eru góðir, menntunarstig er hátt, velferðarkerfið traust og svo má lengi telja. Gripið var til öflugra efnahagsaðgerða, mótvægisaðgerða frá hendi stjórnvalda, til að verja þær atvinnugreinar og einstaklinga sem urðu fyrir mestum áföllum og þær drógu sannarlega úr áhrifum faraldursins. Skýrsla sú sem hér liggur fyrir er viðamikil. Ég skal viðurkenna að mér hefur ekki unnist tími til að lesa hana spjaldanna á milli en það er augljóst að hún er vel unnin og ítarleg.

Á komandi vikum munum við hér í þessum þingsal fá til þinglegrar meðferðar frumvarp um sóttvarnalög og þá verðum við að vanda til verka. Að þessum þætti er vikið í skýrslunni. Þar er m.a. bent á að vegna þess að opinberar sóttvarnaráðstafanir séu íþyngjandi þurfi þær að byggja á skýrum lagaheimildum en einnig á tiltölulega ríkri þörf sem stjórnvöld verða að geta sýnt fram á að hafi verið til staðar eða stjórnvöld hafi með réttu mátt ætla að væru til staðar á þeim tíma sem til viðkomandi ráðstafana var gripið. Þá megi beiting þeirra ekki ganga lengra hverju sinni en nauðsynlegt er, að gættum viðeigandi upplýsingum á þeim tíma sem um ræðir.

Þetta segir í skýrslunni og með leyfi forseta vil ég vekja alveg sérstaka athygli á eftirfarandi ábendingu í skýrslunni, ábendingu sem ég hygg að þingið og sérstaklega velferðarnefnd, sem fær sóttvarnafrumvarp til efnislegrar meðferðar, ætti að huga að. Þar segir:

„… þrátt fyrir að komist sé að þeirri niðurstöðu að í almennum lögum sé að finna heimildir fyrir ráðherra til að ákveða opinberar sóttvarnatakmarkanir standi það því samt ekki í vegi að leitað sé formlegra heimilda Alþingis um sama málefni. Það vekur vissa athygli að slíkt hafi ekki verið gert í ríkara mæli í Covid-19 faraldrinum, heldur var þanþol lagaheimildanna nýtt. Alþingi hefði jafnframt sjálft getað látið þessi mál til sín taka, en valdi þó almennt að gera það ekki.“

Þetta er töluverð gagnrýni á störf þingsins, á störf löggjafans, og ég ætla að fullyrða að hún er réttmæt. Þegar við tökum til við það að fást við ný sóttvarnalög er þessi skýrsla um áfallastjórnun stjórnvalda mjög gott og nauðsynlegt innlegg, í rauninni ekki bara varðandi sóttvarnalögin heldur almennt fyrir stjórnvöld og okkur sem hér erum, við það verkefni að vinna að úrbótum á löggjöf og skipulagi og verklagi eins og í rauninni er tilgangur með skýrslugerðinni. Fyrirheit hæstv. forsætisráðherra liggja fyrir um að það verði gert.

Hitt er svo annað að okkur vantar tilfinnanlega úttekt á því hvernig almenn borgaraleg réttindi voru skert, á hvaða grunni og hvernig gætt var að réttindum einstaklinga sem þurftu að sæta takmörkunum. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þingið að beita sér fyrir því að slík úttekt, lögfræðileg úttekt, verði gerð. Það hefði verið ágætt að hafa hana við höndina þegar við tökumst á við ný sóttvarnalög. Ég ætla hins vegar ekki að velta upp spurningum um hvort sá árangur sem vissulega náðist, bæði hvað varðar að verja líf og heilsu, sem er auðvitað grunnskylda stjórnvalda og tókst vel að verja mikilvæga efnahagslega innviði með aðgerðum í ríkissjóði, hvort sami árangur hefði hugsanlega náðst með því að beita vægari aðferðum. Ég vil þó vekja athygli á því að a.m.k. ein rannsókn, sem unnin var á vegum rannsóknastofnunar John Hopkins-háskóla í hagnýtri hagfræði og heilbrigðisvísindum og birt var í janúar sl., gefur til kynna að með umfangsmiklum félagslegum og efnahagslegum takmörkunum hafi ekki náðst neinn marktækur árangur í baráttunni við Covid og aðeins hafi tekist að draga úr dánartíðni um 0,2% að meðaltali. Við þurfum auðvitað að vera ófeimin að velta því upp, velta því fyrir okkur hvort þær aðgerðir sem gripið var til — árangurinn liggur fyrir — hvort hægt hefði verið að ná svipuðum eða jafnvel jafn góðum árangri með því að beita vægari aðgerðum.

Frú forseti. Ég fagna þessari skýrslu. Ég skal viðurkenna það hér aftur að mér hefur ekki auðnast að lesa hana spjaldanna á milli en hún er mikilvægt plagg, mikilvæg heimild fyrir þær aðgerðir sem gripið var til, vitnisburður um að árangur náðist. En það breytir ekki hinu að við hér þurfum auðvitað að spyrja okkur þessara spurninga: Hvernig getum við staðið betur vörð um hin borgaralegu réttindi þegar stjórnvöld þurfa og neyðast til að grípa til takmarkana, jafnvel þannig að borgaraleg réttindi séu alltaf tímabundin eða gengið á þau? Hvernig getum við varið þau betur? Með hvaða hætti? Ég hygg að við eigum líka að taka til okkar þá gagnrýni sem ég vitnaði til hér áðan þegar bent er á það að Alþingi, við hér, löggjafinn, hefðum getað beitt okkur í ríkara mæli þegar kom að framkvæmd sóttvarna og þeir sem gagnrýndu þær aðgerðir sem gripið var til og eru í þessum sal hefðu getað nýtt sér það vald sem felst í því að sitja á löggjafarsamkomu landsins.