Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:50]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við skipunarbréf fjallar þessi skýrsla um áfallastjórnun stjórnvalda og helstu samfélagslegu áhrif faraldursins. Um hin samfélagslegu áhrif er hægt að sjá ákveðnar vísbendingar, en þekking á þeim er enn í mótun og því þarf frekari rannsókna við á þeim. Hið sama má væntanlega segja um efnahagsleg áhrif faraldursins, þar með talið rannsóknir á árangri af hinum umfangsmiklu vinnumarkaðsaðgerðum stjórnvalda. Og þá munu rannsóknir heilbrigðisvísindafólks bæta við þessa heildarmynd.“

Einnig segir:

„Hins vegar felur skýrslan í sér heildstæða greiningu sem ætti að verða efniviður í vinnu stjórnvalda við eflingu viðbúnaðar og viðbragða við hvers konar vá. Ekki þarf að fjölyrða um að Ísland mun þurfa að mæta fleiri samfélagslegum áföllum.“

Við erum núna að ræða bólusetningar í velferðarnefnd og hugsanlega skaðabótaábyrgð ríkisins þegar almenningur er skyldaður til að fara í bólusetningu. Þessi umræða er komin til vegna apabólu sem finnst orðið hér á landi og víða annars staðar. Þess vegna er nauðsynlegt að við veltum fyrir okkur ýmsum hliðum þeirra aðgerða sem verið er að grípa til í kjölfar áfalla og faraldra. Samstaða okkar Íslendinga í gegnum þennan kórónufaraldur var mikil og í raun er hægt að segja að hún hafi verið falleg. Andspænis ólýsanlegum harmi og ógn stóðum við saman og bæði almenningur og stjórnarandstaðan studdu meiri hlutann í aðgerðum sínum. Var það ekki síst vegna þess að ríkisstjórnin lagði áherslu á að aðgerðir yrðu byggðar á vísindum og þekkingu. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um að hlusta á sérfræðingana þótt gagnrýna mætti að ríkisstjórnin hafi ekki haldið þinginu nær sér í umræðum og við ákvarðanatöku. Í skýrslunni er m.a. bent á nauðsyn breiðrar umræðu og skoðanaskipta um ákvarðanir. Það er líka mikilvægt til að skapa sátt og viðhalda trausti. Þá skiptir samþætting miklu máli, eins og kemur fram í skýrslunni, að samtal og samvinna sé á milli stjórnvalda og starfsmanna en ekki síður milli þeirra sem eru að sinna almannavörnum.

Mig langar bara til að fá að hrósa almannavörnum sem stóðu sig afburðavel þegar mest gekk á í samfélaginu. Þetta þríeyki okkar — jú, það er væntanlega búið að veita þeim fálkaorðuna (Gripið fram í: Já.) en það mætti veita þeim fleiri orður fyrir frammistöðu sína og þær upplýsingar sem þau veittu okkur hinum um stöðuna og það ástand sem uppi var í samfélaginu. Fyrir mér var þessi upplýsingagjöf mikils virði og kom væntanlega í veg fyrir mikinn skaða sem hefði getað orðið ef ekki hefðu komið til þessar upplýsingar sem almannavarnir á þeim tíma veittu okkur til að geta brugðist við, ekki bara stjórnvöldum heldur líka almenningi.

Það er eitt sem mig langar líka að nefna og það er framkvæmd áfallastjórnunar eins og hún birtist út á við. Það er nokkuð óumdeilt að árangur næst best þegar verkfærum áhættustjórnunar er beitt markvisst og með opnum hætti þannig að bæði sé öllum ljóst hvaða skref verða tekin og hvaða afleiðingar þau skref sem verða tekin munu hafa. Dæmi um það í þessu samhengi er að ef ljóst er að smittölur færu yfir fyrirframskilgreind mörk væri búið að kynna nákvæmlega hverjar takmarkanirnar yrðu og á sama tíma kynnt skref um afnám þeirra. Þau sem urðu fyrir neikvæðum afleiðingum, ekki síst veitingageirinn og sviðslistafólkið og önnur þau sem byggja afkomu sína á samkomu fólks, hefðu þá haft meiri vissu um framtíðarsviðsmyndir sem þau hefðu getað byggt á. Vísir að þessu tók reyndar gildi í desember 2020 þegar litakóðakerfið var innleitt. Það sagði til um flokka af takmörkunum, en aldrei við hvaða mörk þeim yrði breytt. Vandinn var því í raun hinn sami og áður. Hæstv. heilbrigðisráðherra gerði síðan grein fyrir drögum að afléttingaráætlun í fyrsta sinn í apríl 2021 þó nokkru eftir að nágrannar okkar í Danmörku og Noregi höfðu kynnt sínar afléttingaráætlanir. Áherslan á fyrirsjáanleika virðist hafa verið meiri þar en hér.

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins, af því að ég þekki þessa stöðu ágætlega sem sveitarstjórnarmaður á þeim tíma þegar staðan var hvað erfiðust, að fara aðeins yfir það hvernig maður upplifði þetta þá. Það var alveg ótrúlega mikil áskorun að halda samfélaginu gangandi, svo ekki sé nú meira sagt, að láta alla innviði virka og halda skólum og leikskólum gangandi og veita þá þjónustu sem þurfti að veita. Við vorum með fólk heima hjá sér sem þurfti á félagslegri þjónustu að halda, heimahjúkrun og alls konar aðstoð sem varð að veita þó að verið væri að glíma við þennan faraldur. Eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir nefndi í ræðu sinni voru það konur sem héldu velferðarþjónustunni gangandi að stærstum hluta. Mig langar bara að nota tækifærið og þakka þeim fyrir það afrek sem þær unnu á þessum tíma og ég skil það vel að margir starfsmenn í velferðarþjónustu séu þreyttir þessa dagana eftir allt sem á undan er gengið. Við þurfum með einhverjum hætti að leita leiða til þess að þakka fyrir það.

Mér fannst það sérstakt þegar við töluðumst bara við í gegnum tölvur. Sveitarstjórnin hittist bara í gegnum tölvur og Ráðhúsið var rekið í gegnum tölvur. Skólarnir voru reknir í gegnum tölvur, börnin okkar þurftu að vera heima og gátu ekki umgengist hvert annað. Hér í dag hefur verið talað um vanlíðan sem ungmennin okkar hafa verið að upplifa vegna þeirrar félagslegu einangrunar sem þau þurftu að takast á við. Allt liggur þetta fyrir og við getum svo sem tekið þetta til umræðu eftir því sem fram líða stundir. En þetta eru málefni sem við þurfum að taka mjög alvarlega. Þessi faraldur hafði ekki bara þau áhrif að við urðum veik líkamlega. Mörg okkar urðu líka veik andlega og mörg okkar eru að glíma við afleiðingar þess.

En mig langaði líka, virðulegur forseti, þrátt fyrir að í skýrslunni sé hvorki verið að tala um heilbrigðismálin né vinnumarkaðinn, að nefna þessar mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin greip til og fékk fullan stuðning til að fara í hér á þingi, sem komu samfélaginu okkar til góða. Ég ætla ekki að fara í grafgötur með það og ég verð bara að hrósa ríkisstjórninni fyrir það. Sveitarfélag eins og Reykjanesbær hefði farið á hausinn ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða. Þegar atvinnuleysi var farið að nálgast 30% og fólk hafði bara tekjur í gegnum atvinnuleysistryggingar — ef ekki hefði komið til þessara aðgerða hefði ekkert útsvar skilað sér til sveitarfélagsins. Ég held að mörg sveitarfélög hafi bara verið í þessari stöðu að þurfa á slíkri úrlausn að halda. Það voru líka mörg fyrirtæki sem gátu haldið áfram rekstri vegna þeirra mótvægisaðgerða sem gripið var til. Hafi ríkisstjórnin þökk fyrir það. Gott dæmi er Isavia, sem reyndar eru í eigu ríkisins, en þar var spýtt verulega í fjárfestingarhlutann sem gerði það að verkum að hægt var að skaffa fjölda manns vinnu við að fara í uppbyggingu, sem mun skila bættri afkomu til framtíðar og hélt fólki í vinnu og hélt fólki í virkni. Þetta skiptir allt saman miklu máli.

Auðvitað getum við á einhverjum tímapunkti gagnrýnt að við höfum ekki brugðist nógu hratt við eða að þingið hafi ekki brugðist nógu hratt við, að aðgerðirnar hafi komið seint. En eins og hér hefur líka verið nefnt þá vissi enginn hvernig átti að takast á við þetta. Þetta var fordæmalaus tími sem við vorum að upplifa og er í raun og veru enn fordæmalaus vegna þess að Covid er enn til staðar. Ég get bara sagt ykkur frá því að ég er nýrisinn upp úr Covid-veikindum sjálfur, ég er enn þá hás. Ég er búinn að veikjast tvisvar af Covid en það er búið að bólusetja mig fjórum sinnum. Sjúkdómurinn er enn til staðar þannig að ég bið um að við pössum upp á eldra fólkið okkar sem er ekki hraust og þarf á því að halda að við verndum það.

Virðulegur forseti. Vorum við að gera rétt þegar við gripum til harðra aðgerða? Eða gripum við til allt of harðra aðgerða? Sitt sýnist hverjum um það. En það liggur fyrir að mörgum mannslífum var bjargað með þeim aðgerðum sem gripið var til. Það liggur algerlega fyrir. Vissulega höfðu þessar aðgerðir neikvæðar afleiðingar fyrir marga en stjórnvöld hvers tíma þurfa að hafa kjark til að taka erfiðar ákvarðanir og fylgja þeim eftir. Þá er gott að hafa fyrir fram unnar áætlanir sem hægt er að styðjast við. Covid verður ekki eini faraldurinn sem við sem þjóð eigum eftir að upplifa. Við búum í eldfjallalandi og við munum þurfa að takast á við ýmiss konar áskoranir sem þjóð í framtíðinni. Þá skiptir máli að við nýtum þá reynslu sem við höfum öðlast í þessum faraldri til þess að undirbúa okkur og nýta.

Virðulegur forseti. Þessi skýrsla er gott innlegg í þá vinnu.