Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra .

[18:27]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að fagna þessari skýrslu sem er um margt áhugaverð og fagna þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag þar sem ýmsir mikilvægir punktar hafa komið fram. Það voru auðvitað ýmsar athugasemdir gerðar við þessar aðgerðir stjórnvalda sem ráðist var í í kjölfar heimsfaraldurs og í faraldrinum sjálfum. Þar má nefna kvartanir undan ófyrirsjáanleika aðgerða og skorti á langtímasýn, skýrleika reglna og misvísandi upplýsingum auk annarra þátta sem hér hafa verið ræddir í dag.

Þótt hingað hafi komi hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum og rómað ráðamenn fyrir vel unnið starf í þessum heimsfaraldri þá er ekki hægt að ræða um viðbrögð stjórnvalda við heimsfaraldrinum án þess að minnast á það óréttlæti sem einstaklingar sem ílengjast hér á landi vegna faraldursins, eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd, voru látnir sæta. Þegar fólki hefur verið synjað um leyfi til dvalar hér á landi og ákvörðun verið tekin um að senda það til baka í aðstæður sem það taldi sig ekki geta unað við sér til lífs geta stjórnvöld gripið til þess að flytja fólk nauðugt úr landi. Til þess hafa stjórnvöld mjög víðtækar lagaheimildir, þar á meðal heimildir til að grípa inn í friðhelgi einkalífs einstaklinga til að hafa uppi á þeim, skikka þá til að halda sig á ákveðnum stað eða tilkynna sig á lögreglustöð, jafnvel daglega, handtaka fólk með miklu tilstandi, jafnvel ofbeldi, halda því svo dögum skiptir og svo að lokum færa það gegn vilja sínum með líkamlegum þvingunum upp í flugvél úr landi.

Það sem stjórnvöld hafa hins vegar ekki heimild til að gera er að þvinga fólk til líkamsrannsókna í þessum tilgangi, enda hefur verið bent á það hér á landi og víðar að slíkar lagaheimildir gætu jafnvel gengið gegn sjálfum læknaeiðnum sem kveður á um að læknar skuli nýta þekkingu sína til góðs en ekki ills. Þegar sá vandi kom upp, vandi stjórnvalda, þetta var vandi stjórnvalda, að ekki var hægt að flytja fólk nauðugt upp í flugvél án þess að það stæðist skimun eftir líkamsrannsókn vegna Covid-faraldursins, þá var vitanlega ekki hægt að flytja fólk úr landi. Það fyrsta sem íslensk stjórnvöld tóku upp á að gera var að svipta þá einstaklinga grunnþjónustu sem ekki gerðu þetta af fúsum og frjálsum vilja, eða af hvaða ástæðum sem það var. Þá er ég að tala um húsaskjól, mat og lágmarksheilbrigðisþjónustu. Staðfest tilvik er um mann sem var fleygt út á götu í febrúar um miðjan vetur á Íslandi. Hann hafði ekki í nein hús að venda, svaf á götum úti, allt vegna þess að þetta fólk veitti ekki beinan atbeina sinn við að vera flutt úr landi í aðstæður sem það var að flýja. Það vekur kannski upp einhverjar hugmyndir hlustenda um hvaða aðstæður biðu fólks þegar bent er á að þrátt fyrir hafa verið fleygt á götuna á Íslandi um hávetur töldu þessir einstaklingar það að vera allslaus á Íslandi skárra en þær aðstæður sem biðu þeirra annars staðar. Ljóst er að stjórnvöld höfðu ekki lagaheimildir til þessara aðgerða og fór það svo að kærunefnd útlendingamála felldi strax úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar um að svipta fólk þjónustu vegna þess að það féllst ekki á að fara í skimun fyrir Covid, þannig að fólk fékk að fara inn í hlýjuna aftur.

Það sem gerist þá er að tíminn líður. Tíminn líður í heimsfaraldri sem ekki er hægt að segja að neinn beri ábyrgð á, sérstaklega ekki þessir einstaklingar. Með tímanum virkjast ákvæði í íslenskum lögum sem kveða á um að hafi einstaklingur dvalið hér á landi í meira en 12 mánuði án þess að fá niðurstöðu um það hvort málið verði opnað yfir höfuð eða ekki þá skuli málið opnað. Það eina sem getur komið í veg fyrir það samkvæmt núgildandi lögum er ef viðkomandi er talinn sjálfur bera ábyrgð á töfum á málsmeðferðinni. Þetta var túlkað sem svo af hálfu Útlendingastofnunar, í mörgum tilvikum, sumum ekki — og þessi mál eru öll mjög ólík og þetta er allt mjög óljóst, og allt mjög lagalega vafasamt — að með því að veita ekki beinan atbeina sinn, þrátt fyrir að stjórnvöld hefðu engar þvingunarheimildir til að flytja fólk upp í flugvél eftir skimun, að þá hefði fólk, þessir einstaklingar, tafið mál sitt. Þetta stenst auðvitað enga lögfræðilega skoðun eins og sjá má af eina dóminum sem fallið hefur um þessi mál enn sem komið er, sem féll 13. október síðastliðinn þar sem niðurstaða stjórnvalda, sú niðurstaða stjórnvalda að viðkomandi einstaklingur hefði borið ábyrgð á töfum á málsmeðferð sinni með því að mæta ekki í Covid-skimun, var felld úr gildi. Dómstólar komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri ekki í samræmi við lögin. Stjórnvöld þráast hins vegar við og halda áfram og segja að þetta mál hafi verið svona og hinsegin og hin málin séu ekki alveg nákvæmlega eins, sem þýðir væntanlega að það þarf að fara með hátt í 30–40 mál fyrir dóm hvert og eitt fyrir sig ef það á að fá endanlega niðurstöðu um það hversu fráleit og ólögmæt þessi framkvæmd var.

Talandi um lagaheimildir þá langar mig til að taka undir með hv. þm. Halldóru Mogensen og fleirum sem hér hafa talað um að það sé miður að ekki hafi enn verið farið í þá úttekt sem kallað hefur verið eftir á lögmæti þeirra aðgerða sem ráðist var í og samræmi þeirra við grundvallarreglur um jafnræði og meðalhóf. Er sérstaklega tekið fram í skýrslunni að engin afstaða sé tekin til þessara þátta. Mér þykir þetta skjóta skökku við, ekki síst í ljósi þess að ég hefði haldið að einn helsti þátturinn sem við hefðum þurft að líta til og læra er það hvort aðgerðir stjórnvalda samræmdust jafnræði og meðalhófi og hvort aðgerðir stjórnvalda hafi verið í samræmi við lögin sem tryggja eiga réttindi borgaranna við slíkar aðgerðir, ekki síst í ljósi þess að þegar liggur fyrir að sumar þeirra aðgerða sem stjórnvöld réðust í stóðust ekki prófið þegar á reyndi. Ljóst er að ekki reyndi á þetta allt saman fyrir dómi og liggja því ekki fyrir skýrar ráðleggingar um framhaldið hvað þetta varðar. Hefði því verið eðlilegt að láta það fylgja þessari úttekt en ég fagna þeim kröfum sem hér hafa komið fram um að farið verði í slíka úttekt og styð það heils hugar. Það er miður að það hafi ekki verið ráðist í það strax en ég vona að það verði gert sem allra fyrst.

Það er nefnilega ekki eingöngu svo að ekkert mat hafi enn farið fram eftir á, á lögmæti aðgerðanna, í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins heldur fór ekkert slíkt mat fram áður en reglur voru settar, líkt og ljóst varð af dómi héraðsdóms þar sem ákvörðun stjórnvalda um að skikka fólk til þess að afplána sóttkví í sérstökum sóttvarnahúsum var felld úr gildi þar sem hún átti sér ekki lagastoð. Það að eitthvað eigi sér ekki lagastoð þýðir að það er ólöglegt. Skilyrði frelsissviptingar og annarra inngripa í grundvallarmannréttindi fólks eru þau að fyrir því sé lýðræðislega sett lagaheimild, hún sé skýr og nauðsynleg til að ná þeim markmiðum sem stefnt er að og meðalhófs sé gætt við setningu hennar og beitingu og ýmislegt fleira. Þar sem í þessu máli var einfaldlega ekki nein lagaheimild fyrir hendi, sem er frumskilyrði inngripa í mannréttindi fólks, var engu mati á meðalhófi fyrir að fara. Aðgerðirnar féllu á fyrsta prófinu svo ekki þurfti að ræða það meir.

Það er því alls ekki sjálfgefið að stjórnvöld fari að lögum eða hagi reglusetningum sínum í samræmi við þau grundvallarréttindi sem við höfum fastsett í stjórnarskrá og alþjóðlega mannréttindasamninga, við höfum ekki fastsett þau af tilviljun, ekki því þau séu sjálfsögð, heldur einmitt því þau eru það ekki. Þessi réttindi hafa einmitt verið sett á blað í kjölfar krísutímabila þar sem stjórnvöld hafa bæði gengið of langt í því að setja þegnum sínum reglur, oftast með það fyrir augum að þeim gangi gott eitt til, en jafnvel hafa stjórnvöld notfært sér ótta og angistarástand til þess að ganga lengra en almenningur myndi almennt sætta sig við.

Umboðsmaður Alþingis gerði þetta einnig að umtalsefni sínu í ársskýrslu embættisins vegna ársins 2021, líkt og minnst hefur verið á í máli nokkurra þingmanna hér á undan mér. Í skýrslunni er bent á að þegar ástand af því tagi sem hér skapaðist í heimsfaraldrinum dragist á langinn þá sé hætt við því að stjórnvöld sýni meiri léttúð við skerðingu grundvallarréttinda sem geti haft áhrif á réttaröryggi borgaranna til frambúðar. Verður umfjöllun umboðsmanns ekki skilin öðruvísi en svo að hann sé að kalla eftir heildstæðri úttekt á þeim aðgerðum sem gripið var til í ljósi grunnreglna ríkisins og á hann þar augljóslega við lögmætisreglu stjórnskipunarréttar svo og aðrar þær grundvallarreglur sem gilda um réttindi borgaranna, í daglegu tali gjarnan nefnd mannréttindi.

Ég tek það fram, líkt og margir hafa gert hér á undan mér, að það er engan veginn ætlun mín að draga úr alvarleika faraldursins eða fella einhvern dóm um allar þær aðgerðir sem ráðist var í heldur einungis árétta að það er á tímum sem þessum sem þörf er á að standa sérstakan vörð um þau grundvallarréttindi sem við getum á góðviðrisdögum annars leyft okkur að álíta sjálfsögð og óhagganleg. En þau eru það ekki.