Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:38]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað og komið með margvísleg sjónarmið. Það vakti athygli mína þegar hv. þingmaður sem hér talaði á undan talaði um að hv. stjórnarþingmenn hefðu komið hér upp og rómað aðgerðir stjórnvalda, því að ég held að það hafi kannski verið einn hv. stjórnarþingmaður sem gerði það. Eitthvað hefur hv. þingmaður verið að hlusta á aðra en ég því að ég heyrði ekki slíka rómun frá hv. stjórnarþingmönnum, svona til upplýsingar. Hins vegar er skýrslan ansi jákvæð í garð stjórnvalda.

Það sem mig langar að koma á framfæri er að í síðustu köflum skýrslunnar, köflum 55 og 56, er ágæt samantekt á þemunum sem um er fjallað annars vegar og hins vegar ábendingar. Mig langar að draga fram örfá atriði. Í fyrsta lagi er áhugavert að sjá hvaða reynsla hefur nýst við undirbúning viðbragða við faraldri. Þau nefna sérstaklega ný lög um almannavarnir árið 2008 og lög um þjóðaröryggisráð 2016. Enn fremur er vísað til þess sem kom inn í stjórnarráðslögin 2011 um ráðherranefndir. Allir þessir þættir hafi tryggt aukna samhæfingu í stjórnkerfinu umfram það sem við þekktum áður. Mér finnst þetta áhugavert vegna þess að það var jafnvel gagnrýnt þegar til að mynda ákvæði um ráðherranefndir komu inn í stjórnarráðslögin. Þau hafa hins vegar gerbreytt samskiptum ráðherra innan Stjórnarráðsins. Í þessu tilfelli var ráðherranefnd um samræmingu mála virkjuð. Ég þekki þetta. Auðvitað er stjórnkerfið íslenska ólíkt mörgum öðrum stjórnkerfum því að við erum ekki fjölskipað stjórnvald í raun og veru. Samkvæmt laganna bókstaf fer heilbrigðisráðherra einn með það vald að setja sóttvarnaráðstafanir samkvæmt reglugerð að tillögu sóttvarnalæknis. En strax í faraldrinum var ákveðið að þær aðgerðir skyldu ræddar í ríkisstjórn og á síðari stigum voru þær einnig ræddar með fagfólkinu í ráðherranefnd um samræmingu mála. Mér finnst þetta áhugaverð ábending og þó að ég hafi ekki komið að því að semja lögin um Stjórnarráðið né heldur lögin um þjóðaröryggisráð þá finnst mér gott að sjá að þetta þykir virka.

Hér hafa nokkrir hv. þingmenn talað um félagslegar afleiðingar og ég get tekið undir margt sem þeir sögðu en mér finnst mikilvægt að halda því til haga að við settum 750 milljónir á þessu ári til að draga úr félagslegum afleiðingum af faraldrinum og milljarð á næsta ári í sértækar aðgerðir bara til að draga úr faraldrinum. Þá er ég ekki að tala um allt annað sem gert er en þetta er nokkuð sem ég held að hafi ekki endilega verið gert annars staðar. Það er mikilvægt að við metum hvernig þessir fjármunir hafa nýst.

Það er sérstaklega fjallað um þessi teymi sem voru sett á laggirnar þegar aðeins tók að líða á faraldurinn til þess að fylgjast með neikvæðum afleiðingum á viðkvæma hópa. Ég held að það sé eitthvað sem við eigum að byggja á og vinna frekar.

Mig langar líka að nefna, af því að hér hefur verið rætt um hina lagalegu hlið, að það var í ágúst 2020 sem ég og heilbrigðisráðherra óskuðum eftir álitsgerð frá Páli Hreinssyni um lagaheimildir, annars vegar valdheimildir sóttvarnalæknis og hins vegar heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana. Þeirri álitsgerð var skilað í september og er undirstöðugreinargerð þegar nú er einmitt verið að fjalla um sóttvarnalögin í þinginu. Einhverjir hv. þingmenn hafa rætt um þessar lagaheimildir og ég held að það sé mikilvægt að rifja hana upp af því að hún er undirstöðugreinargerð og það er mikilvægt að við skoðum hana. Þar kom fram þetta sjónarmið sem hv. þingmaður sem hér talaði á undan vitnaði í frá umboðsmanni Alþingis, að þegar líða tekur á faraldur breytist að einhverju leyti eðlið, eðlilega, og það er farið yfir það ágætlega hvernig togstreitan fór vaxandi eftir því sem leið á faraldurinn. Það er mikilvægt að við tökum þetta til skoðunar. Það er erfitt hins vegar, eins og einhverjir nefndu hér, að setja algjörlega fyrirsjáanleg viðmiðið í því þegar faraldur hefur staðið í þrjá mánuði, sex mánuði, það er eiginlega vart hægt. Það verður alltaf eitthvert mat að fara fram. En þetta er eitthvað sem ég tel að þingið verði að sjálfsögðu að ræða.

Síðan var rætt um lýðræðislega stjórnarhætti og hvort þeir hefðu vikið. Ég ætla ekki að taka undir það. Við búum að því á Íslandi að hér eru fjölmiðlar en ég velti fyrir mér varðandi það sem hv. þingmaður vitnaði í um fjölmiðlanefnd, hvort þar sé vitnað í þann hóp sem þjóðaröryggisráð skipaði um upplýsingaóreiðu, fjölmiðlanefnd kom vissulega þar að. En við sáum auðvitað víða í kringum okkur merki þess að það voru mjög miklar tröllasögur á kreiki. Ekki hef ég nokkurn hug á því að ritskoða eða banna nokkurn málflutning en ekki stenst allur málflutningur skoðun. Ég held að við getum hreinlega ekkert litið fram hjá því að þegar við erum að fást við sjúkdóm þá er mikilvægt að vísindin séu höfð að leiðarljósi þegar við ræðum um þau málefni. Sumt eru hreinlega staðreyndir og annað ekki. Ég held að við getum ekkert litið fram hjá því. Ég varð ekki vör við annað en að það væri ágætlega öflug umræða, og sérstaklega eftir því sem leið á faraldurinn, opinberlega um ýmis sjónarmið. En ég hlýt að hafna því að sú sem hér stendur eða aðrir í ríkisstjórninni hafi beitt sér fyrir því að banna einhverja umræðu þó að við höfum haft og ég hafi haft til að mynda mjög eindregna skoðun hvað það varðaði að fylgja bestu vísindalegu gögnum hverju sinni. Og einmitt til að tryggja að umræðan um þau yrði mikilvæg þá beitti ég mér fyrir því og tryggði það að nokkrum sinnum í faraldrinum var efnt til sérstaks samtals á vettvangi ráðherranefndar um samræmingu mála þar sem ólíkir sérfræðingar voru kallaðir að borðinu, ekki bara á sviði heilbrigðisvísinda heldur líka lögfræðingar og aðrir sem þurftu að takast á við afleiðingar af faraldrinum. Í þessum kringumstæðum, þar sem var mjög erfitt að halda opna fundi, þá var reynt að efna til umræðu til að fá sem flest sjónarmið þannig að stjórnvöld gætu byggt sínar ákvarðanir á bestu mögulegu gögnum og það er besta stjórnunin í gegnum svona faraldur, í gegnum hvaða áföll sem eru, það skiptir máli að byggja sína ákvarðanatöku á bestu mögulegu gögnum.

Það er fjallað um þennan upplýsingaóreiðuhóp á síðu 494 í skýrslunni og sá hópur sem starfaði á vegum þjóðaröryggisráðs átti samstarf við Vísindavef Háskóla Íslands og það er áhugavert að sjá að þar kom fram sú niðurstaða að upplýsingaóreiða hafi ekki orðið að vandamáli í faraldrinum hér á landi. Sitt kann hverjum að sýnast um það. Ég tel raunar einmitt að vegna þess hversu mikil og upplýst umræðan var þá höfum við eignast þjóð sem í raun var ótrúlega vel í stakk búin til þess að leggja mat á upplýsingar og takast á við þessar erfiðu aðstæður. Ég vil leyfa mér að segja og tel það eftir að hafa staðið í þessu í tvö ár að Íslendingar og landsmenn allir hafi verið alveg gríðarlega vel upplýstir og færir um að taka skynsamlegar ákvarðanir í faraldrinum vegna þess að fólk leitaði sér upplýsinga og byggði þær upplýsingar á traustum heimildum.