Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:46]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðuna. Ég vil bara örstutt fá að undirstrika það sem fram kemur í þessari títtnefndu nýju skýrslu, á bls. 502–503, að það hafi verið látið reyna á þanþol lagaheimildanna í stað þess að leita formlegrar heimildar Alþingis. Alþingi hefði getað látið mál þessi til sín taka en valdi þó almennt að gera það ekki. Niðurstaðan var sú, ef maður lítur til baka, að Alþingi var jaðarsett í ferlinu. Það var ekki bara á Íslandi. Það gerðist líka í nágrannalöndum okkar, því miður, á Norðurlöndunum. Það hefur verið mikið gagnrýnt í Noregi og þess vegna vil ég halda þessu á lofti hér á Íslandi. Þetta má ekki gleymast og þetta má ekki endurtaka sig. Ef þingið verður óvirkt á svona tímum þá er það auðvitað stórkostlegt áfall fyrir lýðræðislegt stjórnarfar í landinu. Það segir sig sjálft. Það sem blasir við er að völd voru afhent sérfræðingum, að mínu viti og margra annarra, í of ríkum mæli. Það blasti t.d. við undir það síðasta, meðan sóttvarnalæknir réð hér ríkjum má segja. Hann kom út af ríkisstjórnarfundi — ein af tillögum hans hafði verið útgöngubann og þetta var rétt áður en því var aflétt — og sagði að hann væri ósáttur við að ráðherrar í ríkisstjórn væru með andmæli. Hann vildi að allir töluðu einni röddu út á við.

Hvað varðar ritskoðunartilburði fjölmiðlanefndar þá hef ég gögn undir höndum sem sýna að það var leitað til erlendra fyrirtækja til að kalla ritskoðun yfir Íslendinga. Ég minni á að það sem heitir falsfréttir og upplýsingaóreiða í dag getur verið stórkostlega breytt á morgun. (Forseti hringir.) Það er ekki hlutverk stjórnvalda að ákvarða það. Það verður að fá að gerast í sólarljósinu.