Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nú hef ég setið hér á Alþingi í 15 ár og Alþingi starfaði með öðrum hætti í gegnum þennan heimsfaraldur út frá sóttvarnaráðstöfunum. Það var mikið lagt í það að Alþingi gæti starfað og samt fylgt sóttvarnaráðstöfunum og tryggt heilsu þingmanna eftir því sem framast mátti, enda var það krafa þingmanna. Eins og hér kom fram í máli hv. þm. Daníels E. Árnasonar, sem talaði hér áðan, þá afgreiddi þingið fjölmörg mál, ekki bara Covid-tengd mál. Þingið var að glíma við ýmis frumvörp, afgreiða til að mynda réttarbætur handa hinsegin fólki eins og hann nefndi í sinni ræðu, en ég gæti talið upp mörg önnur mál. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda voru hér afgreiddar í þinginu og um þær fjallað. Þess vegna segi ég að þingið hafði auðvitað full tök á því, og hefur það alltaf, það veit ég sem þingmaður til langs tíma, að stíga inn í þessi mál. Rétta spurningin er kannski: Var ekki einfaldlega meiri hluti þingsins hreinlega sammála þeim ákvörðunum sem var verið að taka? Fól það í sér einhverja ritskoðun af hálfu stjórnvalda? Nei, segi ég. Ég held að þetta fólk hér, þessir 63 þingmenn, hafi bara tekið þessa ákvörðun. Vissulega voru einhverjir hv. þingmenn ósammála og létu í sér heyra og lögðu fram mál. Þau náðu ekki fram að ganga. Segir það okkur ekki hreinlega að meirihlutaviljinn á Alþingi var einfaldlega sá að fólk vildi fylgja þeirri línu sem stjórnvöld lögðu? Það var enginn sem bannaði neinum að hafa aðra skoðun.