Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 32. fundur,  16. nóv. 2022.

Niðurstöður nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[18:51]
Horfa

Arnar Þór Jónsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Ég vil bara árétta það sem ég sagði áður: Í skýrslunni segir og við höfum það reyndar skjalfest að það var ekki leitað formlegra heimilda Alþingis. Það kann vissulega að vera rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að meiri hluti þingmanna hafi verið samþykkur þessu. En það hefði verið betri bragur á því lýðræðislega og út frá þeim varnöglum sem slegnir eru í stjórnarskránni okkar að kallað hefði verið saman þing með einhverju móti vegna þess að út á við birtist þetta þannig að breytt hefði verið um stjórnarfar í landinu. Í stað þess, eins og ég lýsti áðan að segir í 1. gr. stjórnarskrárinnar, að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn hafi þingræðið verið leyst af hólmi með einhvers konar sérfræðingastjórn og fámennisstjórn sem, samkvæmt þeim orðum sem ég vísaði til áðan frá sóttvarnalækni, birtist m.a. í því að reynt var að kæfa niður andmæli m.a. ráðherra út á við og reynt að koma því þannig fyrir að ríkisstjórnin talaði einni röddu. Þetta var óheilbrigt ástand. Í heilbrigðu ástandi fá þingmenn að koma í ræðustól og tjá sig um svona málefni, hverjum eigi að fela völd og hvaða stefnu skuli marka í þessu en reyndin var sú að það var afskaplega lítil umræða um stjórn landsins og stefnumörkun hvað þetta varðaði. Stjórnin var í reynd afhent, og ég vil undirstrika það og árétta, fámennum hópi sérfræðinga. Hættan við slíka stjórnun er sú að sjónarhornið þrengist og það sé stýrt með rörsýn en ekki með heildarsýn. Þetta eru mínar athugasemdir og eru settar fram af fullri virðingu fyrir forsætisráðherra og ríkisstjórn og þingi. — Ég hef lokið máli mínu.